Trump hefur skömm á mótmælunum

Donald Trump á blaðamannafundinum í dag.
Donald Trump á blaðamannafundinum í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki af baki dottinn þegar kemur að gagnrýni hans á þá tilburði íþróttamanna að krjúpa á meðan þjóðsöngurinn er spilaður fyrir kappleiki. Nú hefur hann kallað þá sem ekki sýna þjóðsögnum tilhlýðilega virðingu smánarlega.

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag, sem hann hélt með forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, sagði Trump að banna ætti leikmönnum að krjúpa, en því hafa leikmenn í NFL-deildinni, og raunar fleiri íþróttum, hafa tekið upp á því til að vekja máls á þeirri mismunun sem viðgengst gagnvart svörtum og öðru lituðu fólki í Bandaríkjunum. Segja má að alda mótmæla hafi náð nýjum hæðum þegar Trump hóf að tjá sig um málið.

Vildi láta reka þá

Forsetinn krafðist þess fyrir helgi að þeir leikmenn NFL-deildarinnar sem sýndu bandaríska fánanum óvirðingu ættu að verða reknir frá liðum sínum eða settir í bann. Tilburðirnir hafa ekki verið til vegsauka fallnir fyrir forsetann enda hefur íþróttahreyfingin mótmælt ummælum forsetans af krafti.

Þessa skoðun sína ítrekaði Trump á umræddum blaðamannafundi. Þar vísaði forsetinn á bug að gagnrýni hans á leikmenn íþróttahreyfingarinnar hafi verið á kostnað þeirrar athygli sem hann ætti að veita þeim sem eiga um sárt að binda í kjölfar fellibylsins í Púertó Ríkó. „Þetta er kallað að sýna ættjörð sinni virðingu,“ sagði forsetinn sem hefur meðal annars lent upp á kant við nokkra af skærustu stjörnum NBA-deildarinnar. Um helgina gripu leikmenn allnokkurra íþróttaliða til þess ráðs að krjúpa, haldast í hendur eða halda til í búningsklefum á meðan þjóðsöngurinn var spilaður.

Börðust fyrir þjóðsönginn

Trump sagðist í dag hafa skömm á þessum mótmælum. Hann sagðist nýlega hafa heimsótt aflimaða menn í Walter Reed Army Medical Center, menn sem hefðu gegnt herþjónustu fyrir þjóð sína. „Þeir börðust fyrir landið okkar,“ sagði Trump. „Þeir börðust fyrir þjóðfánann og þeir börðust fyrir þjóðsönginn.“ Og hann hélt áfram. „Það er smánarlegt að sýna því vanvirðingu með því að krjúpa þegar þjóðsöngurinn er spilaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert