Á yfir höfði sér lífstíðar fangelsi

Veggur við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Veggur við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Bandarískur flutningabílstjóri á yfir höfði sér lífstíðar fangelsisdóm fyrir að smygla fólki. Hann hefur játað að hafa keyrt flutningabíl með ólöglega innflytjendur frá Mexíkó til Bandaríkjanna. 10 manns létust í miklum þrengslum í bílnum þar sem súrefni var af skornum skammti og engin loftkæling. Í flutningabílnum voru um 200 manns frá Mexíkó og Gvatemala. 

Í júlí var bifreiðin stöðvuð og upp komst um athæfið. Dómur verður kveðinn upp í máli James Matthew Bradley sem er 61 árs gamall í janúar á næsta ári.  

Starfsmaður verslunarinnar Walmart í borginni San Antonio, nálægt landamærum Mexíkó, tilkynnti lögreglunni um flutningabílinn sem hafið verið lagt á bílaplani verslunarinnar. Bradley var handtekinn á staðnum. 

Í bílnum voru 39 ólöglegir innflytjendur. Þeir greindu lögreglunni frá því að þeir hafi skipst á að anda að sér súrefni í gegnum eitt lítið gat á bílnum. Á leiðinni leið yfir nokkra þeirra af súrefnisskorti og hita. Átta létust í bílnum en tveir létust skömmu seinna á sjúkrahúsi. 

„Þetta mál minnir okkur á að græðgi drífur smyglarana áfram sem huga lítið að heilsu og velferð fólksins sem það smyglar.“ Þetta sagði Shane Folden hjá heima­varn­ar­ráðuneyti Banda­ríkj­anna í tilkynningu. 

Í september var Pedro Silva Segura, sem er 47 ára gamall, ákærður fyrir að vera samsekur um smygl og samsæri. Hann er óskráður innflytjandi sem býr í borginni Laredo sem er við landamæri Texas.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert