Hollande hellir sér yfir Trump

François Hollande, fyrrverandi forseti Frakklands.
François Hollande, fyrrverandi forseti Frakklands. AFP

François Hollande, fyrrverandi forseti Frakklands, gagnrýnir Donald Trump, forsesta Bandaríkjanna, harðlega fyrir afstöðu þess síðarnefnda gagnvart kjarnorkusamkomulagi við Írana.

Frönsk yfirvöld tóku þátt í viðræðunum um samkomulagið en með samningnum við Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland frá árinu 2015 skuldbatt klerkastjórnin í Íran sig til að takmarka verulega kjarnorkuáform sín gegn því að viðskiptaþvingunum gegn landinu yrði aflétt.

Donald Trump sagði í síðustu viku að hann hygðist ekki staðfesta samninginn. Trump gekk ekki svo langt að rifta samningnum eins og hann hafði lofað áður en hann var kjörinn forseti. Hann hótaði þó að gera það síðar ef Bandaríkjaþing og samstarfsríki í Evrópu næðu ekki fram þeim breytingum sem hann vildi.

Forsetinn sagði að Íranar hefðu brotið gegn „anda samningsins“ þegar hann tilkynnti þá ákvörðun sína að staðfesta ekki að hann þjónaði hagsmunum Bandaríkjanna. Trump lýsti honum sem „versta samningi í sögu Bandaríkjanna“ og sagði að landið gæti sagt honum upp hvenær sem væri.

Forsetinn boðaði einnig harðari refsiaðgerðir gegn Byltingarverðinum, úrvalssveitum sem Ruhollah Khomeini erkiklerkur stofnaði eftir íslömsku byltinguna í Íran 1979. Trump gekk þó ekki svo langt að skilgreina Byltingarvörðinn sem hryðjuverkasamtök.

Ákvörðun Trumps um að staðfesta ekki að afnám refsiaðgerðanna þjóni hagsmunum landsins verður til þess að þingið þarf að ákveða innan tveggja mánaða hvort grípa eigi til refsiaðgerða gegn landinu að nýju. Verði það gert er líklegt að klerkastjórnin í Íran segi upp samningnum. Tveir repúblikanar í öldungadeildinni, Tom Cotton og Bob Corker, hafa lagt fram tillögur sem gætu leitt til refsiaðgerða gegn Íran ef landið brýtur samninginn. Ekki er víst að tillögurnar fái nægan stuðning í deildinni því minnst 60 af 100 þingmönnum hennar þurfa að samþykkja þær.

Hollande varar við því að hvatvísi Trumps ógni stöðugleika heimsins.

„Ákvörðun Donalds Trumps um að staðfesta ekki samninginn og krafa hans um að þingið herði refsiaðgerðir sínar er fyrir mér tvöfalt brot,“ sagði Hollande á ráðstefnu í Seúl í morgun.

Þetta er fyrsta ræða Hollandes á alþjóðlegum vettvangi frá því hann lét af embætti forseta í maí. Meðal þess sem Hollande fjallaði um í ræðu sinni í Seúl voru alþjóðleg mál eins og loftslagsmál og stjórnmál popúlista. 

Hollande segir að aðgerðir Trumps sýni hversu mikill misskilningur hans er og djúpstæður varðandi tilgang samningsins. Samningnum var ætlað að binda enda á vopnaeign Írana en ekki breyta um stefnu.

Hann sakaði Trump einnig um skemmdarverk í sambandi við frekari viðræður við Norður-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert