McCain óttast ekki Trump

McCain hefur gagnrýnt stefnu Donald Trump.
McCain hefur gagnrýnt stefnu Donald Trump. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er aftur kominn í opinberar deilur við öldungardeildarþingmanninn John McCain. Trump hótaði honum í raun hálfpartinn í útvarpsviðtali í dag eftir að sá síðarnefndi sakaði hann um falska þjóðernishyggju í ræðu á mánudag.

„Ég hef verið mjög almennilegur, en á einhverjum tímapunkti mun ég berjast til baka og það verður ekki fallegt,“ sagði Trump í viðtalinu.

Trump hefur haft horn í síðu McCain um skeið og þeir hafa áður staðið í deilum. McCain hefur til að mynda tvisvar komið í veg fyrir að repúblikönum takist að fella úr gildi lög um heilbrigðistryggingakerfi í Bandaríkjunum, sem nefnt er Obamacare.

Í samtali við AFP-fréttastofuna vildi McCain ekki gera mikið úr orðum Trump. „Ég geri það sem ég þarf, starfa með honum eins mikið og ég get og geri það sem ég þarf að gera fyrir íbúa í Arisona,“ sagði hann.

McCain virðist að minnsta kosti ekki óttast Trump. „Ég hef þurft að takast á við ansi miklar og mun erfiðari áskoranir í lífinu,“ sagði þingmaðurinn, sem dvaldi í fimm ár í fangabúðum í Víetnam og berst nú heilaæxli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert