Banna búrkur í Quebec

Kona í niqab. Höfuðfatnaður sem hylur andlitið verður bannaður hjá …
Kona í niqab. Höfuðfatnaður sem hylur andlitið verður bannaður hjá þeim sem sinna eða þiggja almannaþjónustu í Quebec. AFP

Yfirvöld í Quebec-fylki í Kanada hafa samþykkt umdeilda löggjöf sem bannar fólki að hylja andlit sitt á meðan það sinnir eða þiggur opinbera þjónustu. Lögin eru svo nefndi trúarleg hlutleysislög og nýlega var sú breyting gerð á frumvarpinu að það nær nú einnig til almenningssamgangna og þjónustu sveitarfélaga.

Þær konur sem klæðast búrku eða niqab þurfa því framvegis að sýna andlit sitt er þær þiggja almannaþjónustu.

Lögin voru samþykkt með 66 atkvæðum gegn 51, að því er BBC greinir frá, en löggjöfin er búin að vera í vinnslu frá 2014.

Skrifstofustarfsfólk, lögreglumenn, kennarar og strætóbílstjórar, sem og læknar, ljósmæður og tannlæknar sem starfa fyrir hið opinbera þurfa því hér eftir að sinna starfi sínu með andlit sitt óhulið.

Þá verður einnig hætt að bjóða upp á niðurgreiðslu á dagvistun sem trúarhópar bjóða upp á.

Múslimar eru ekki nefndir sérstaklega í löggjöfinni og fylkisstjórnin segir lögin taka til alls þess sem hylur andlitið. Nýju lögin munu þó hafa áhrif á þær múslimsku konur sem bera blæju og möguleika þeirra á að nýta sér almannaþjónustu, hvort sem er að ferðast með strætó, fara á bókasafnið eða nýta sér heilbrigðisþjónustu. Segja gagnrýnendur þær verða jaðarsettar með nýju lögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert