Stöðvuðu umfangsmikið froskasmygl

Froskur.
Froskur. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi hafa sleppt 7.500 froskum aftur út í náttúruna í kjölfar handtöku fimm manna, sem grunaðir eru um að hafa staðið fyrir einu umfangsmesta froskasmygli í sögu landsins.

Samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum var mini-rúta mannanna stöðvuð við reglubundið eftirlit í Cappadoccia-héraði. Í bifreiðinni fannst fjöldi neta með þúsundum froska. Mennirnir reyndust á leiðinni til Adana, þar sem þeir hugðust selja froskana útflytjanda.

Viðskipti með ætar frosktegundir geta verið afar arðbær en froskar þykja t.d. mikið lostæti í Frakklandi og Kína. Í Tyrklandi þarf hins vegar leyfi til að veiða froska og það má aðeins á ákveðnum tímum. Þá eru viðskipti með ákveðnar tegundir bönnuð.

Froskarnir sem fundust í bifreið mannanna fimm voru veiddir án leyfis og utan skilgreindra veiðisvæða. 

Margir segja áfergju Frakka í froska orsök minnkandi stofna og umhverfisspjalla í ríkjum á borð við Indónesíu, sem er einn stærsti útflytjandi froskalappa til Evrópu.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert