Svartir eins sjaldgæfir og einhyrningar

Lenny Henry.
Lenny Henry. AFP

Breski grínistinn Sir Lenny Henry segir að svartir leikarar og sjónvarpsmenn séu eins sjaldgæfir og einhyrningar á sjónvarpsskjánum á kvöldin og vill að breska ríkisstjórnin veiti skattaafslátt til að auka fjölbreytileikann.

Þrátt fyrir áratugabaráttu aðgerðarsinna sagði Henry að „fjöldi þeirra svartra og brúnna sem starfa við vinsælustu þætti bresks sjónvarps er svo lítill að þeir geta ekki einu sinni birt tölfræðina“.

Þetta kom fram í máli hans á MIPCOM, sem er alþjóðleg ráðstefna í Cannes um sjónvarpsiðnaðinn.

Henry er annar af stofnendum góðgerðarsamtakanna Comic Relief, sem hafa safnað yfir einum milljarði punda, eða tæpum 140 milljörðum króna, á síðustu 30 árum í baráttunni gegn fátækt.

Stéttarfélög fengu ekki tölurnar

„Þeir eru meira að segja svo sjaldgæfir að David Attenborough fann þrjá dódó-fugla og einhyrning áður en hann fann einn,“ grínaðist Henry, eftir að hafa greint frá því að sjónvarpsframleiðendur hefðu neitað að láta stéttarfélög fá töluna yfir fjölda svartra leikara og sjónvarpsmanna vegna þess að hún væri svo lág.

„Þrátt fyrir alla okkar sigra, er fjölbreytileikinn í sjónvarpi í slæmu ásigkomulagi,“ sagði hann og taldi að skattaafsláttur til þeirra sem ráða minnihlutahópa í lykilhlutverk gæti breytt ástandinu.

Hann sagði að ríkin Kalifornía og New York væru með svipaðan skattaafslátt í huga.

„Ímyndið ykkur heim þar sem þið sæjuð aldrei fólk eins og ykkur eða að aldrei væri greint frá vandamálum sem þið kannast við á skjánum,“ sagði Henry í ræðu sinni.

„En þetta gerir iðnaðurinn okkar hvað eftir annað. Hann segir okkur sem erum fjarverandi á skjánum að okkar líf og okkar sögur skipti ekki máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert