Bitin af veggjalús um borð í flugvél

Heather hefur starfað í hótelbransanum og þekkti skordýrin strax.
Heather hefur starfað í hótelbransanum og þekkti skordýrin strax. AFP

Flugfélagið British Airways hefur formlega beðið kanadíska fjölskyldu afsökunar eftir að hún var bitin af veggjalús (bed bugs) um borð í flugvél félagsins. BBC greinir frá.

Heather Szilagvi var á leið frá Vancouver í Kanada til London í næturflugi ásamt unnusta sínum og átta ára dóttur fyrr í þessum mánuði þegar hún kom auga á veggjalýs í sætum þeirra og á sætunum fyrir framan þau. Hún segist hafa starfað í hótelbransanum og hafi auðveldlega séð veggjalýsnar með berum augum.

Szilagvi kvartaði við flugfreyju en var tjáð að fjölskyldan gæti ekki fengið að skipta um sæti. Hún segir að bæði hún og dóttir hennar hafi vaknað upp þaktar bitum eftir að hafa lagst til svefns í vélinni. „Flugfreyjan sagði: „Æj, okkur þykir það leitt en vélin er full svo við getum ekki flutt ykkur neitt.“.“

Þegar vélin lenti voru Szilagvi og dóttir hennar báðar þaktar bitum eftir veggjalýsnar. Hún hringdi strax í þjónustusíma flugfélagins til að gera þeim viðvart um málið og koma í veg fyrir að fjölskyldan þyrfti að fara með sömu vél aftur heim. Eftir nokkrar tilraunir til að ná sambandi við flugfélagið gafst hún upp og birti myndir af bitunum á Twitter.

Flugfélagið hafði samband við hana í kjölfarið, baðst afsökunar og bauðst til að færa fjölskylduna á fyrsta farrými á leiðinni heim aftur.

„Við vorum ekki að biðja um endurgreiðslu. Við vorum einfaldlega að biðja um að fá að fara með annarri vél heim og vildum vera viss um að vélin með veggjalúsinni yrði þrifin með viðeigandi hætti.

British Airways hefur nú beðið fjölskylduna formlega afsökunar vegna málsins. „Við höfum verið í sambandi við viðskiptavini okkar og beðist afsökunar, og málið verður rannsakað frekar,“ sagði talsmaður flugfélagsins í yfirlýsingu. „British Airways flýgur yfir 280 þúsund ferðir á hverju ári og tilkynningar um veggjalýs um borð eru mjög fátíðar. Við erum hins vegar vör um okkur og munum láta skoða vélar okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert