Hefur ekki lýst yfir sjálfstæði

Carles Puigdemont ásamt borgarstjóra Barcelona, Ada Colau.
Carles Puigdemont ásamt borgarstjóra Barcelona, Ada Colau. AFP

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segist ekki hafa lýst yfir sjálfstæði héraðsins frá Spáni en hann mun hugsanlega gera það ef spænsk stjórnvöld ákveða að afnema sjálfstæði Katalóníu sem héraðs.

Puigdemont hafði frest til klukkan 8 til að greina frá ákvörðun sinni.

„Ef ríkisstjórnin heldur áfram að koma í veg fyrir viðræður og halda áfram kúgun sinni þá gæti þing Katalóníu, ef það telur tímapunktinn réttan, kosið um formlega sjálfstæðisyfirlýsingu, sem ég óskaði ekki eftir 10. október,“ skrifaði Puigdemont.

Spænsk stjórnvöld segjast ætla að standa við hótun sína og afnema sjálfstæði Katalóníu sem héraðs. „Spænsk stjórnvöld munu halda áfram með þær áætlanir sem koma fram í grein 155 í stjórnarskránni í því skyni að afturkalla lögmæti Kaltalóníu sem sjálfstjórnarhérað,“ sagði í yfirlýsingu frá stjórnvöldum.

Þar er átt við grein sem leyfir spænsku ríkisstjórninni að taka yfir stjórn héraðs vegna sérstakra kringumstæðna.

Ríkisstjórnarfundur verður haldinn á laugardaginn þar sem málið verður rætt. BBC greinir frá því að þar verði Katalónía svipt sjálfsstjórn sinni. 

Al­gjör óvissa hef­ur ríkt á Spáni frá því spænsk yf­ir­völd bönnuðu sjálf­stæðis­kosn­ingu Katalón­íu. Gripið var til harka­legra lög­regluaðgerða til að hindra kosn­ing­arn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert