Óásættanlegt fyrir Bandaríkin að hörfa

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Hvorugur virðist …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Hvorugur virðist tilbúinn að lúta í lægra haldi fyrir hinum. AFP

Bandaríkin ættu að líta svo á að stjórn Norður-Kóreu sé „við það“ að framleiða kjarnorkusprengju sem getur náð til Bandaríkjanna. Þau eiga því að gera það sem þau geta til að koma í veg fyrir þetta,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Mike Pompeo, forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Pompeo sagði Donald Trump Bandaríkjaforseta staðráðinn að koma í veg fyrir að Norður-Kóreu takist ætlunarverk sitt, „hvort sem það verði næsta þriðjudag eða eftir mánuð“.

Bæði Pompeo og HR McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, segja forsetann frekar vilja nota refsiaðgerðir og milliríkjasamskipti til að neyða Kim til að ræða afvopnun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna. McMaster segir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna. McMaster segir óásættanlegt fyrir Bandaríkin að hörfa. AFP

Hann varaði þó við því að notkun á bandarískum herafla væri áfram á borðinu, sem möguleiki til að hindra norður-kóresk yfirvöld í að eignast langdræga kjarnaflaug.

„Hæfni þeirra er nógu mikil núna til þess að frá bandarísku sjónarmiði ættum við að haga okkur eins og þeir séu við það að ná þessu takmarki,“ sagði Pomeo á málstofu um stefnumál í Washington.

Bandaríska leyniþjónustan hafi fylgst vel með framvindu mála í gegnum tíðina, en eldflaugaþekking Norður-Kóreu vaxi nú of hratt til að hægt sé að vita með vissu hvenær þeir nái takmarki sínu.

Orðin spurning um mánuði

„Þegar maður er farinn að tala um mánuði þá er hæfni okkar til að meta á hvaða stigi þetta er í raun orðin málinu óviðkomandi,“ bætti hann við.

Trump væri hins vegar reiðubúinn að tryggja að Kim geti ekki ógnað Bandaríkjunum. „Með hernaðarafli ef það reynist nauðsynlegt,“ bætti Pomeo við.

Kim Jong-un hefur gert lítið til að dylja þann metnað …
Kim Jong-un hefur gert lítið til að dylja þann metnað sinn að þróa langdrægar eldflaugar sem geti ráðist á borgir í Bandaríkjunum og herstöðvar við Kyrrahafið. KCNA

Fulltrúi Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum tilkynnti í þessari viku að ráðamenn í Norður-Kóreu muni ekki leggja kjarnorkuvopnabúr sitt né eldflaugaáætlun sína á samningaborðið, nema bandarísk stjórnvöld láti af fjandsamlegri afstöðu sinni í þeirra garð.

Kim hefur gert lítið til að dylja þann metnað sinn að þróa langdrægar eldflaugar sem geti ráðist á borgir í Bandaríkjunum og herstöðvar við Kyrrahafið.

Fer að verða um seinan

McMaster sagði gestum málþingsins að Norður-Kóreu yrði ekki leyft að þróa vopn sem ógnuðu Bandaríkjunum.

 „Við erum ekki orðin of sein en við erum að verða of sein,“ sagði McMasters. „Forsetinn hefur verið skýr á því. Hann mun ekki samþykkja að þetta ríki ógni Bandaríkjunum með kjarnavopnum. Til eru þeir sem segja að við eigum að sætta okkur við þetta og hörfa. Að sætta sig við þetta og hörfa er óásættanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert