Börn frá stríðssvæðum verði vígamenn framtíðar

Lögregla lokar af verslunarmiðstöð í München eftir skotárás. Þýska leyniþjónustan …
Lögregla lokar af verslunarmiðstöð í München eftir skotárás. Þýska leyniþjónustan óttast að börn sem nú snúa til baka frá stríðshrjáðum svæðum verði vígamenn framtíðar. AFP

Þýskar leyniþjónustustofnanir lýstu í dag yfir áhyggjum af því að ungmenni sem nú snúa til baka til Þýskalands frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi og Írak kunni að verða að nýrri kynslóð vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Rúmlega 950 manns héldu frá Þýskalandi til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin í Sýrlandi og Írak. 20% þeirra voru konur og 5% voru enn á barnsaldri samkvæmt upplýsingum frá BfV, leyniþjónustunni sem sérhæfir sig í innanlandsmálum Þýskalands.

Nú þegar Ríki íslams er að missa tök á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak er búist við að margar kvennanna snúi heim til Þýskalands á ný. Hefur Reuters-fréttastofan eftir Hans-Georg Maassen, forstjóra BfV, að Þýskaland verði að vera undir það búið að börnin hafi gengið samtökunum á hönd.

„Við sjáum hættuna sem felst í börnum sem hafa umgengist og kynnst vígamönnum og sem nú snúa aftur til Þýskalands frá stríðssvæðunum,“ sagði Maassen. „Þetta gæti gert nýrri kynslóð vígamanna kleift að vaxa hér úr grasi.“

Á síðasta ári mistókst 12 ára þýsk-íröskum dreng að sprengja tvær sprengjur í bænum Ludwigshafen í Vestur-Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert