Sprengjuhundurinn sem missti áhugann

Örlög Lulu voru ekki að verða sprengjuhundur.
Örlög Lulu voru ekki að verða sprengjuhundur. Mynd/CIA

Eftir aðeins nokkrar vikur í þjálfun hjá CIA fór labradordortíkin Lulu, sem átti að verða sprengjuhundur bandarísku leyniþjónustunnar, að verða áhugalaus um að þefa af sprengjum. CIA skrifaði um málið á Twitter og Sky News greindi frá.

Þjálfari Lulu hafði gert sér miklar vonir um að tíkin yrði næsti sérfræðingur CIA en það virðast hins vegar ekki hafa verið örlögin sem henni voru ætluð.

Þjálfunin byrjaði vel en fljótlega fór að halla undan fæti. Lulu virtist einfaldlega ekki hafa áhuga á því að þefa uppi sprengjur. Jafnvel þótt hún væri hvött til dáða með mat og leik virtist hún ekki njóta sín við sprengjuleitina.

Þar sem CIA setur andlega og líkamlega heilsu sprengjuhunda sinna alltaf í forgang neyddist leyniþjónustan til að gera það sem þeir töldu best fyrir Lulu og leystu hana frá þjálfuninni. Í Twitter-færslu segir CIA að hundar séu jafnmisjafnir og mannfólkið og að stundum þurfi að leggja smá auka vinnu í þjálfunina. Þeir geti einfaldlega þurft að fá að leika sér, geti þjáðst af fæðuofnæmi eða minni háttar líkamskvillum, eða þurft að hvíla sig. Lagist vandamálið hins vegar ekki fljótlega geti verið að starfið henti þeim einfaldlega ekki. 

Þetta eru þó alls ekki slæmar fréttir fyrir Lulu, því dýraþjálfar hjá leyniþjónustunni mega taka að sér hunda sem hætta í þjálfun. Þjálfarinn hennar tók hana að sér og eignaðist hún nýtt heimili þar sem hún eyðir dögunum í að eltast við kanínur og íkorna í garðinum, sem er ekki alveg jafntaugatrekkjandi verkefni.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert