Stál í stál á Spáni

Frá mótmælum sjálfstæðissinna á þriðjudag. Vænta má frekari mótmæla næstu …
Frá mótmælum sjálfstæðissinna á þriðjudag. Vænta má frekari mótmæla næstu daga. AFP

Að óbreyttu munu spænsk stjórnvöld á laugardag hefja undirbúningsvinnu við að flytja sjálfsstjórnarvöld Katalóníu til Madríd, samkvæmt 155. grein spænsku stjórnarskrárinnar. Í greininni segir m.a. ef yfirvöld í héraðinu uppfylla ekki þær skyldur sem útlistaðar eru í stjórnarskránni eða vinna gegn hagsmunum Spánar, sé stjórnvöldum landsins heimilt að grípa til allra mögulegra aðgerða til að knýja þau til að uppfylla téðar skyldur eða standa vörð um umrædda hagsmuni.

Spænsk stjórnvöld hafa staðfest í dag að þau hyggjast virkja grein 155 en þau höfðu gefið Carles Puigdemont, leiðtoga Katalóníu, frest til kl. 8 í morgun til að skýra afstöðu yfirvalda í héraðinu. Fresturinn leið án þess að Puigdemont gæfi út sjálfstæðisyfirlýsingu fyrir hönd íbúa en hann hefur hótað því að láta til skarar skríða, ef stjórnvöld í Madríd gera sig líkleg til að taka völdin í sínar hendur.

Mennta- og menningarmálaráðherra Spánar, Inigo Mendez, gerir sig líklegan til …
Mennta- og menningarmálaráðherra Spánar, Inigo Mendez, gerir sig líklegan til að gefa út yfirlýsingu um fyrirætlan stjórnvalda um að svipta Katalóníu sjálfstjórn, að hluta til eða að fullu. AFP

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, mun sækja leiðtogafund í Brussel í dag. Óvíst er hvort yfirlýsinga sé að vænta í dag eða á morgun um næstu skref en á laugardag gæti ríkisstjórnin mögulega ákveðið að boða til kosninga í Katalóníu eða taka yfir ákveðna hluta stjórnsýslunnar, t.d. lögregluna og fjármálastjórnina. Að því er fram kemur hjá BBC telja sérfræðingar að 155. greinin veiti stjórnvöldum ekki heimild til að svipta héraðið sjálfstjórn að fullu.

Allar aðgerðir sem stjórnvöld velja að ráðast í þarf þingið að samþykkja en þegar kemur að málefnum Katalóníu nýtur Íhaldsflokkur Rajoy stuðnings Sósíalistaflokksins og Borgaraflokksins. Flokkarnir fylla 254 sæti af 350 í neðri deild þingsins og 214 sæti af 266 í efri deildinni.

Puigdemont hafði áður lagt til að áhrifum mögulegrar sjálfstæðisyfirlýsingar yrði frestað um tvo mánuði á meðan viðræður færu fram við stjórnvöld í Madríd en ljóst er að Rajoy hyggst halda fast í þá afstöðu að þjóðaratkvæðagreiðslan sem haldin var 1. október sl. hafi verið með öllu ólögmæt og aðför gegn lögum og reglu. 

Óvíst er um framhaldið en ekki óvarlegt að ætla að yfirlýsingu spænskra stjórnvalda um virkjun greinar 155 verði svarað með mótmælum næstu daga, ekki síst ef tilkynnt verður um valdatilfærslur á laugardag.

Fjölmiðlafólk bíður átekta fyrir utan aðsetur katalónskra stjórnvalda í Barcelona …
Fjölmiðlafólk bíður átekta fyrir utan aðsetur katalónskra stjórnvalda í Barcelona í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert