Hyggjast boða til kosninga í Katalóníu

AFP

Yfirvöld á Spáni munu að öllum líkindum boða til kosninga í Katalóníu í janúar á næsta ári, en það er hluti þeim aðgerðum að virkja 155. grein stjórnarskrárinnar í þeim tilgangi að flytja sjálfstjórnarvöld Katalóníu til Madrídar. Það fullyrðir að minnsta kosti fulltrúi Sósíalistaflokksins, en allar aðgerðir sem stjórn­völd á Spáni velja að ráðast í þarf þingið að samþykkja. Þegar kem­ur að mál­efn­um Katalón­íu nýt­ur Íhalds­flokk­urinn stuðnings Sósí­al­ista­flokks­ins og Borg­ara­flokks­ins. BBC greinir frá.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu var haldin þann 1. október síðastliðinn í óþökk spænskra yfirvalda, sem segja hana hafa verið með öllu ólögmæta og aðför að lögum og reglum. 43 prósent kosningaþátttaka var í kosningunni og um 90 prósent þeirra sem kusu sögðu já við sjálfstæði Katalóníu.

Yfirvöld á Spáni höfðu hótað að grípa til aðgerða ef Charles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, gæfi ekki skýra afstöðu yfirvalda í héraðinu fyrir klukkan 8 í gærmorgun. Fresturinn leið án þess að hann gæfi út sjálfstæðisyfirlýsingu en hann hefur hótað að láta til skarar skríða.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, mun tilkynna um aðgerðirnar á ríkistjórnarfundi á morgun, en hann hefur ekki staðfest það við fjölmiðla að boðað verði til kosninga í janúar. Hann sagði hins vegar á blaðamannafundi í Brussel í dag aðgerðirnar sem ráðist yrði í nytu stuðnings Sósíalistaflokksins og Borgaraflokksins.

Carmen Calvo, leiðtogi Sósíalistaflokksins, tilkynnti hins vegar um kosningarnar í sjónvarpsviðtali í dag. Hún skoraði jafnframt á Puigdemont að fallast á fyrirkomulagið, en hann hefur hunsað áskoranir spænskra yfirvalda um að falla frá hugmyndum sínum um sjálfstæði Katalóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert