Rekin úr landi eftir 20 ár

Þátttakendur í mótmælum gegn innflytjendastefnu Trump við Trump turninn í …
Þátttakendur í mótmælum gegn innflytjendastefnu Trump við Trump turninn í New York. AFP

Bandaríski dómarinn Patti Saris glímir nú við það hversu miklu lengur hún getur tafið að stjórn Donald Trumps Bandaríkjaforseta í að flytja 47 kristna Indónesíubúa úr landi. Fólkið flúði ofbeldi í heimalandinu fyrir 20 árum og hefur frá þeim tíma búið ólöglega í New Hampshire með óformlegu samþykki innflytjendayfirvalda.  

Samþykktin hefur falið í sér að fólkið þarf reglulega að gefa sig fram við innflytjendayfirvöld með vegabréf sín og að mæta reglulega í viðtal. Þetta breytist hins vegar allt þegar að Trump tók við embætti forsetans og Indónesíubúarnir 47 eiga nú yfir höfði sér að vera fluttir aftur til heimalands síns þar sem þeir óttast að vera beittir misrétti og jafnvel ofbeldi.

„Þetta er erfitt mál,“ segir dómarinn Patti Saris við Reuters fréttastofuna. „Þetta er gott og heiðvirt fólk sem hefur dvalið hér með okkar blessun. Það hefur haft atvinnuleyfi og hefur ekki brotið gegn þeim skilyrðum sem við höfum sett því.“

Þegar hópurinn mætti til reglulegrar vegabréfaskoðunar í ágúst á þessu ári var þeim sagt að búa sig undir að yfirgefa landið, sem er í anda þess kosningaloforðs Trumps að reka milljónir ólöglegra innflytjenda úr landi.

Saris veltir nú fyrir sér hvort hún hafi vald til að veita þeim færi á að áfrýja máli sínu.

Lögfræðingar fóru í mál við innflytjendastofnunina í síðasta mánuði til að stöðva brottflutning fólksins og Saris heimilaði þá að henni væri frestað á meðan hún ákvarðar hvort hún hafi lögsögu í málinu, en málefni innflytjenda eru venjulega á valdi framkvæmdavaldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert