Bjóða milljón fyrir upplýsingar um morðið

Blóm og kerti hafa verið lögð í minningu Daphne Caruana …
Blóm og kerti hafa verið lögð í minningu Daphne Caruana Galizia og nú hafa stjórnvöld boðið eina milljón evra í verðlaun, hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar um morðingja hennar. AFP

Ríkisstjórn Möltu hefur boðið eina milljón evra í verðlauna og heitið fullri vernd hverjum þeim sem veitt getur upplýsingar um morðið á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia. Caruana Galizia var myrt með bílasprengju fyrir utan heimili fjölskyldunnar fyrr í vikunni, en hún var þekktur bloggari í heimalandi sínu og harður gagn­rýn­andi stjórn­valda á Möltu.

Morðið hefur vakið mik­inn óhug hjá íbú­um eyj­unn­ar, en Galizia vann m.a. ít­ar­leg­ar frétt­ir um spill­ing­ar­mál tengd­ for­sæt­is­ráðherra lands­ins, Joseph Muscat, og nán­um sam­starfs­mönn­um hans og fjöl­skyldu.  

Í yfirlýsingu sem stjórnvöld Möltu sendu frá sér í dag segir að grípa þurfi til „aðgerða sem ekki eigi sér fordæmi“, en stjórnin sé ákveðinn í að leysa þetta „óhemjumikilvæga mál“ og refsa hinum seku.

Stjórnvöld á Möltu hafa áður boðið fé fyrir upplýsingar og fyrir nokkrum árum var heitið verðlaunum fyrir upplýsingar um bankarán. Þetta er hins vegar talið í fyrsta skipti sem stjórnvöld greiða fyrir upplýsingar í morðmáli.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa fordæmt morðið á Caruana Galizia og segja það árás á frelsi blaðamanna.

Eiginmaður Car­una Galizia og þrír syn­ir gefa lítið fyrir loforðið um fundarlaunin, en þeir hafa áður hvatt for­sæt­is­rá­herr­ann til að segja af sér. Hann eigi að taka póli­tíska ábyrgð á fyrsta slíka morðinu á blaðamanni á Möltu frá því að eyj­an hlaut sjálf­stæði árið 1964.

Hefur sonur hennar, Matt­hew Car­u­ana Galizia, sem einnig er blaðamaður og kom meðal ann­ars að rann­sókn á Pana­maskjöl­un­um, raunar sagt Muscat vera sam­sek­an um morðið á móður hans.

Hefur Guardian eftir þeim að Car­u­ana Galizia hafi ekki lengur upplifað sig örugga úti á götu og að stjórnvöld og lögregla hafi brugðist því að verja grundvallarrétt hennar til frelsis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert