Abe öruggur með sigur

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í höfuðstöðvum flokksins á kjördag. Hann …
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í höfuðstöðvum flokksins á kjördag. Hann hét því að taka fast á málefnum Norður-Kóreu. AFP

Útgönguspár benda til þess að Frjálslyndir demókratar, flokkur forsætisráðherrans Shinzo Abe, fari með öruggan sigur í þingkosningunum sem fara fram í Japan í dag.

Ein útgönguspáin bendir til þess að flokkur Abe muni fá 311 þingsæti, eða tvo þriðju þingsæta, en aðrar spár hafa bent til þess að fylgið verði eitthvað minna.

Abe er nauðsynlegt að halda meirihluta í þinginu eigi honum að takast það ætlunarverk sitt að gera breytingar á stjórnarskrá landsins, sem í dag hljóðar upp á að Japanar hafni stríði með öllu.

Til þessa hafa japönsk stjórnvöld farið í kringum lagagreinina með því að fullyrða að her landsins starfi eingöngu til að verja þjóðina. Abe hefur hins vegar ekki lagt dul á að hann vilji breyta lögunum.

Talið er að hörð viðbrögð hans við kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu hafi tryggt Frjálslyndum demókrötum öruggan meirihluta í þinginu og hét Abe því í dag að taka áfram fast á málefnum Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert