Bréf úr Titanic selt á 18 milljónir

Ríflega 2.200 voru um borð í Titanic er það sökk, …
Ríflega 2.200 voru um borð í Titanic er það sökk, en aðeins 700 þeirra komust lífs af.

Eitt af fáum bréfum sem vitað er til að hafi verið ritað um borð í Titanic seldist á uppboði í Wiltshire á Englandi í gær fyrir 126.000 pund eða sem jafngildir um 17,5 milljónum króna. BBC greinir frá.

Bréfið ritaði bandarískur kaupsýslumaður, Oscar Holverson að nafni, til móður sinnar. Hann var um borð í skipinu ásamt konu sinni Mary en þau voru á leið aftur heim til New York eftir dvöl í Southampton á Englandi.

Í bréfinu segir Oscar skipið „gríðarstórt og minna á mikilfenglegt hótel“. Oscar minnist þess sérstaklega í bréfinu að hafa rekist á John Jacob Astor IV, einn ríkasta mann heims á þeim tíma. „Hann lítur út eins og hver annar maður jafnvel þótt hann eigi milljónir. Þau sitja bara á þilfarinu með okkur.“

Bréfið er það eina úr Titanic sem vitað er um að hafi farið í sjóinn án þess að glatast. Kaupandinn, sem tók þátt í uppboðinu í gegnum síma, vildi ekki láta nafns síns getið en uppboðshaldarinn, Andrew Aldridge, lýsir honum sem áhugamanni um sagnfræðilega minjagripi.

Í viðtali áður en uppboðið var haldið sagði Aldridge að „meira að segja þótt bréfið væri tómt væri það samt með þeim verðmætari“. Slíkt væri eðli sögunnar sem það geymdi, einkum þar sem það er ritað á pappír sem er sérmerktur skipinu.

1.500 manns létust er Titanic sökk aðfaranótt 15. apríl 1912, þ. á m. Oscar og fyrrnefndur John Jacob Astor. Mary kona hans lifði þó af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert