Carter býðst til að ræða við Kim

Jimmy Carter ásamt Fidel Castro, leiðtoga Kúbu, í Havana árið …
Jimmy Carter ásamt Fidel Castro, leiðtoga Kúbu, í Havana árið 2002. Carter var fyrsti forseti Bandaríkjanna til að heimsækja Kúbu síðan Castro náði völdum árið 1959. CRISTOBAL HERRERA

Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segist reiðubúinn til að fara til Norður-Kóreu á vegum Bandaríkjastjórnar og semja við þarlend yfirvöld. Þetta kom fram í viðtali við New York Times. Carter segist hafa látið þjóðaröryggisráðgjafa Trump, H.R. McMaster, vita að hann sé til staðar ef Trump þurfi á erindreka að halda í Norður-Kóreu.

Aðspurður viðurkennir Carter að vera smeykur við stjórnvöld í Norður-Kóreu og deilur Trumps við Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. „Þeir vilja bjarga stjórninni,“ segir Carter um Norður-Kóreumenn, og segir Bandaríkjamenn ofmeta áhrif Kína á Norður-Kóreu. „Kim Jong-un hefur aldrei, svo ég viti til, farið til Kína. Og þeir hafa engin sambönd. Kim Jong-il [faðir hans og fyrrverandi einræðisherra] fór til Kína og stóð Kínverjum nærri.

Forsetinn fyrrverandi hefur ágæta reynslu af viðræðum við Norður-Kóreu en hann hélt til einræðisríkisins árið 1994, í óþökk Bill Clinton þáverandi forseta, til að ræða við Kim Il-sung, þáverandi leiðtoga. Tókst honum þá að landa samningi þar sem Norður-Kóreustjórn skuldbatt sig til að losa sig við öll kjarnorkuvopn í skiptum fyrir þróunaraðstoð. Síðar kom þó í ljós að stjórnvöld í Pyongyang höfðu farið á bak við Bandaríkjamenn og haldið áfram þróun kjarnorkuvopna.

Þá fór hann til Norður-Kóreu árið 2010 til að semja um lausn bandarísks manns, Aijalon Gomes. Sá hafði verið enskukennari í Suður-Kóreu en var hnepptur í þrælkun eftir að hafa farið yfir landamærin í norðri í óleyfi. Hann var svo látinn laus eftir nokkra mánuði í haldi er Carter fór á fund einræðisherrans.

Carter fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2002 fyrir áratugavinnu að friðsamlegum lausnum í milliríkjadeilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert