Enn flæðir í Suður-Noregi

Norska vatna- og orkumálastofnunin hefur sett á næsthæsta hættustig af …
Norska vatna- og orkumálastofnunin hefur sett á næsthæsta hættustig af fjórum, sem stendur út daginn í dag. Mynd/google

Íbúar Øst-Agder, Telemark og Vestfold í Suður-Noregi hafa marga fjöruna sopið, bókstaflega, þegar kemur að flóðum og tjóni af völdum þeirra en fyrstnefnda fylkið er nú svo gott sem á kafi í vatni eftir úrkomu síðan fyrir helgi en hámarki náði hún í nótt og mældist þá 84,7 millimetrar.

Ekki eru nema þrjár vikur liðnar síðan flóð í nágrannafylkjunum Øst- og Vest-Agder ollu tjóni sem lauslega áætlað er metið á rúmar 500 milljónir norskra króna, rúma 6,6 milljarða íslenskra króna, en þá bárust norskum tryggingafélögum alls um 3.300 tjónstilkynningar frá heimilum og fyrirtækjum sem lentu í því að húsnæði hreinlega fylltist af vatni auk þess sem vatnsflaumur hreif með sér brýr og ár flæddu yfir bakka sína.

Í gær setti Norska vatna- og orku­mála­stofn­un­in (n. Nor­ges vass­drags- og energidirek­torat, NVE) viðbúnaðarstig vegna flóðahættu á rauðgult, sem er næsthæsta hættustig af fjórum, og stendur það viðbúnaðarstig út daginn í dag, sunnudag.

Bærinn Tvedestrand á kafi

Hlutar E18-hraðbrautarinnar eru nú á kafi í vatni, alls 70 kílómetra langir kaflar, og hefur lögregla sett upp vegatálma í nágrenninu og lokað brautinni á þeim köflum en auk þess hefur mörgum minni vegum verið lokað. Tilkynningar hafa borist um að minnsta kosti 15 íbúðarhús sem flætt hefur inn í og hafa íbúarnir í sumum tilfellum þurft að forða sér að heiman. Þá er bærinn Tvedestrand hreinlega á kafi í vatni líkt og sjá má í þessari frétt norska ríkisútvarpsins NRK.

Beate Nytrøen, sem var á leið frá Drammen og heim til sín í Lillesand í dag, með mann sinn og hund í bílnum, segir í samtali við norska dagblaðið VG að sér hafi ekki litist á blikuna þegar hún kom að flóðinu á E18 en hún var einn síðustu vegfarenda sem sluppu í gegn áður en brautinni var lokað.

„Þetta var óhugnanlegt, hefði ég opnað dyrnar hefði bíllinn fyllst af vatni,“ sagði hún við VG og bætti því við að það hefði verið býsna sérstök upplifun, eftir að hafa nýlega séð fréttamyndir af stórflóðum og hamförum í Bandaríkjunum, að upplifa skyndilega það sama við bæjarhlaðið heima hjá sér.

Lögregla og viðbragðsaðilar í báðum Agder-fylkjunum eru í viðbragðsstöðu en samkvæmt spám vatna- og orkumálastofnunarinnar munu flóðin ná hámarki í kvöld og verða í rénun í nótt og á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert