Heilræði frá Einstein á uppboði

Albert Einstein tekur við bandarískum ríkisborgararétti.
Albert Einstein tekur við bandarískum ríkisborgararétti. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bréfmiðar sem eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Albert Einstein gaf póstbera í Tókýó hafa komið fram í dagsljósið og standa nú til boða á uppboði í Jerúsalem. Á miðana skrifaði Einstein tvö heilræði sem hann taldi að gætu gagnast póstberanum. 

Árið 1922 var Einstein á ferð um Japan að halda fyrirlestra en hann hafði þá nýlega hlotið tilnefningu til Nóbelsverðlaunanna fyrir afstæðiskenninguna. Japanskur póstberi kom á Imperial-hótelið í Tókýó til þess að koma skilaboðum áleiðis til Einstein. Í stað þjórfjár handskrifaði Einstein á tvo bréfmiða og afhenti póstberanum. 

„Ef þú ert heppinn verða þessir bréfmiðar verðmætari en venjulegt þjórfé,“ mun Einstein haf sagt að sögn seljandans sem er ættingi póstberans. 

Á einum miðanum segir að „hljóðlátt og hógvært líf gefi meiri hamingju en leit að velgegni sem fylgi sífelldur órói.“ Á hinum miðanum stendur einfaldlega „þar sem vilji er fyrir hendi, þar er leið.“

Þó að bréfmiðarnir tveir innihaldi engan vísindalegan sannleik gefa þeir innsýn í hugarheim Nóbelsverðlaunahafans. Þeir verða boðnir upp á þriðjudaginn ásamt fleiri munum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert