Þakkar Twitter forsetaembættið

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann væri eflaust ekki forseti ef hann væri ekki jafn virkur á Twitter og raun ber vitni. Þetta kom fram í viðtali við forsetann í dag á sjónvarpsstöðinni Fox.

„Ég á vini sem segja mér alls ekki að nota samfélagsmiðla, en í hreinskilni sagt efast ég um að ég væri hér nema fyrir tilstuðlan þeirra,“ sagði forsetinn, sem státar af næstum 50 milljón fylgjendum á Twitter. Þar tístir hann um allt milli himins og jarðar, allt frá stefnumálum sínum, persónulegum árásum á hina og þessa, og hótanir gegn öðrum þjóðum.

„Twitter er eins og ritvél. Þegar ég set eitthvað út þá setur þú það strax í þáttinn þinn. Um daginn sagði ég eitthvað og nokkrum mínútum síðar kom það í þættinum þínum,“ sagði Trump.

Fjölmargir pólitískir leiðogar hafa ítrekað hvatt Trump til að halda aftur að sér þegar kemur að því að tísta, því forsetinn á það til að vera ónákvæmur og jafnvel fara með staðreyndavillur, sem hefur vakið reiði bæði hjá mótherjum hans og samherjum.

Síðast á fimmtudag skammaðist John Kerry, fyrrverandi utanríkisáðherra Bandaríkjanna, yfir Twitter-notkun forsetans og sagði hana valda eyðileggjandi andrúmslofti og upplausn í stjórnmálunum.

Trump sagði hins vegar að með því að nota Twitter, Instagram og Facebook til að koma sínum málum á framfæri gæti hann sniðgengið fjölmiðla sem hann segir gjarnan vera ósanngjarna í sinn garð.

„Ef einhver segir eitthvað um mig þá get ég svarað því strax. Annars gæti ég ekki komið mínum sjónarmiðum í loftið strax.“

Forsetinn gaf sjálfum sér líka klapp á bakið fyrir það hvað hann væri góður í að koma frá sér texta. „Textinn er vel orðaður. Ég var alltaf góður nemandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert