Sakar þrjá sænska landsliðsmenn um áreitni

Gunilla vill ekki nafngreina leikmennina.
Gunilla vill ekki nafngreina leikmennina. Mynd/Eggert Jóhannesson

Gunilla Axen, fyrrverandi landsliðskona í sænska landsliðinu í knattspyrnu, sakar þrjá vel þekkta leikmenn, sem spiluðu með sænska karlalandsliðinu í knattspyrnu um kynferðislega áreitni. Hún segir þá jafnframt hafa sent henni fjölda ósæmilegra mynda. Í þremur tilfellum hafi verið um að ræða myndir af getnaðarlimum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Gunilla, sem varð Evrópumeistari með liði sínu árið 1984, sagði í samtali við Aftonbladet að um væri að ræða þrjá leikmenn, sem hefðu verið „vel þekktir, virtir og farsælir“ þegar meint áreitni átti sér stað á síðasta áratug. Gunilla vildi ekki gefa upp nöfn leikmannanna.

Meint áreitni mun hafa átt sér stað þegar Gunilla starfaði sem forstöðumaður hjá sænska knattspyrnusambandinu. Hún sagði að forseta sambandsins og stjórninni hefði verið tilkynnt um málið en ekkert hefði verið aðgert.

Aftonbladet hafði samband við núverandi forseta sambandsins sem sagðist vera í áfalli yfir fréttunum. Þá sagði talsmaður sambandsins, Niklas Bodell, að svona hegðun væri ekki liðin innan sambandsins og að frekari upplýsingar þyrftu að berast um málið svo hægt væri að bregðast við. Ekkert ofbeldi væri liðið innan sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert