Tveir látnir og tugir slasaðir í fellibyl

Ár hafa víða flætt yfir bakka sína með tilheyrandi flóðum, …
Ár hafa víða flætt yfir bakka sína með tilheyrandi flóðum, m.a. í höfuðborginni Tókýó. AFP

Fellibylurinn Lan hefur kostað fimm manns lífið í Japan um helgina, eins til viðbótar er saknað og tugir eru slasaðir. Lan kom upp að ströndum Japans um helgina og dró úr kjörsókn í þingkosningunum sem þar voru haldnar í gær.

Fyrsta fórnarlamb fellibyljarins var karlmaður sem lést er stillansar hrundu yfir hann á byggingasvæði í  Fukuoka. Þá lést 70 ára karlmaður er hann freistaði þess að synda yfir í annan bát eftir að hans eigin bátur varð vélarvana. Þá fundust kona og karl drukknuð í bílum  sínum og hleri sem fór á flug kostaði einn til viðbótar lífið.

Tveggja er síðan saknað eftir að skriður féllu í Osaka og Wakayama og þá eru 130 manns  hið minnsta slasaðir eftir Lan.

AFP segir vindhraðann hafa náð allt að 162 km/klst, en mikil úrhellisrigning hefur verið í Japan alla helgina vegna fellibyljarins og hafa ár víða flætt yfir bakka sína og vegir farið í sundur.  

Áætlunarferðum lesta, flugvéla og ferja hefur verið aflýst á mörgum leiðum. Hefur japanska veðurstofan varað við hættu á mikilli ölduhæð, skriðuföllum og flóðum um allt Japan, en Lan er nú tekinn að mjakast á haf út aftur og er búist við að veðrið verði að mestu gengið niður í fyrramálið.

Mörg fyrirtæki og stofnanir, m.a. Toyota-bílaframleiðandinn, brugðust við veðurspánni með því að loka og segja starfsfólki sínu að halda sig heima.

Veðurfræðingar spá því að bylurinn mjakist á haf út þegar líður á daginn og gangi nokkurn veginn niður að morgni þriðjudags. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert