McCain gagnrýnir að Trump hafi forðast herþjónustu

Öldungadeildaþingmaðurinn John McCain hefur lengi átt í deilum við Donald …
Öldungadeildaþingmaðurinn John McCain hefur lengi átt í deilum við Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Öldungadeildaþingmaðurinn John McCain gerir lítið til að dylja gagnrýni sína í garð Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að hafa forðast herþjónustu. McCain og Trump hafa undanfarið átt í orðahríð sín á milli.

Tekið var viðtal við McCain á þingfréttarásinni CSPAN í tilefni þess að 50 ár eru frá því að hann var skotinn niður yfir Víetnam og var í kjölfarið fimm ár í hinu illræmda „Hanoi Hilton“ fangelsi.

„Eitt ágreiningsmálið sem ég mun aldrei mótmæla er að við létum lægst launuðu stéttirnar gegna herskyldu, en þeir sem voru efnaðri fundu lækni sem var tilbúinn að segja að þeir væru með beinspora [e. bone spur],“ sagði McCain og vísaði þar til sjúkdómsgreiningarinnar sem gerði Trump kleift að teljast ófær til herþjónustu árið 1968.

„Það er rangt, það er rangt. Ef við ætlum að biðja alla Bandaríkjamenn að gegna herskyldu, þá ættu allir Bandaríkjamenn að gera það,“ sagði McCain sem er sjálfur sonur aðmíráls og neitaði að vera látinn laus snemma úr fangelsi eftir að hafa verið pyntaður af föngurum sínum.

Trump sagði um McCain í forsetaframboði sínu að McCain væri stríðshetja „bara af því að hann var handtekinn“. „Ég kann vel við þá sem náðust ekki,“ sagði Trump.

Trump forðaðist herkvaðningu í þrígang á tímum Víetnamstríðsins á grundvelli háskólanáms síns. Að námi loknu taldist hann aftur kandídat fyrir herþjónustu, en var dæmdur óhæfur af læknisfræðilegum ástæðum í skoðun hjá hernum 1968.

Það hefur lengi verið spenna milli þeirra McCain og Trump, en hún hefur náð nýjum hæðum undanfarið og í síðustu viku gagnrýndi McCain „America first“ aðferðafræði Trump-stjórnarinnar.

„Að hafna skyldum alþjóðaleiðtoga ...á grundvelli einhverrar hálfbakaðrar og falskrar þjóðernisstefnu sem er spunnin upp af fólki sem vill frekar finna blóraböggla en leysa vandamál, það er jafn óþjóðrækið og nokkur önnur þreytt fortíðarkredda,“ sagði McCain sem nú berst við æxli á heila.

Trump svaraði fyrir sig hjá íhaldssama útvarpsmanninum Chris Plante sl. þriðjudag og sagði: „Menn ættu að vara sig, því á einhverjum tímapunkti þá svara ég fyrir mig.

„Ég er að vera góður, mjög, mjög góður. En á einhverjum tímapunkti svara ég fyrir mig og það verður ekki fallegt,“ varaði forsetinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert