Flugslys í Bretlandi

Slysið er talið hafa átt sér stað rétt við Waddesonsetrið …
Slysið er talið hafa átt sér stað rétt við Waddesonsetrið sem er í eigu Rothchild-fjölskyldunnar. Af Wikipedia

Flugvél og þyrla eru taldar hafa lent í árekstri á flugi í Buckinhamskíri í nágrenni þorpsins Waddesdon á Englandi. Í tilkynningu frá flugslysanefnd segir að búið sé að senda teymi á staðinn til að rannsaka árekstur „loftfars og þyrlu“. Sky segir að loftfarið sé flugvél en BBC hefur ekki staðfest það. Í frétt Sky er birt mynd af flaki annarrar vélarinnar. Þar segir að þær tengist báðar flugskóla í nágrenninu.

Frekari fréttir af atvikinu eru enn mjög óljósar en það er í frétt BBC sagt hafa átt sér stað um hádegi að staðartíma og að lögregla og sjúkralið hafi verið hvatt á vettvang. Þar er haft eftir lögreglu að áhersla sé lögð á að bjarga mannslífum.

Í frétt Telegraph segir að óttast sé að fólk hafi látist í slysinu. Þar er sagt að um flugvél og þyrlu hafi verið að ræða og að slysið hafi átt sér stað í nágrenni Waddesdon-setursins. Setrið er í eigu Rothchild-fjölskyldunnar. Starfsfólk setursins segir að slysið hafi orðið í nágrenni þess en ekki á landareigninni sjálfri.

Flök vélanna eru sögð hafa hrapað í skóglendi. Af þeim sökum voru sérhæfðir leitarhópar kvaddir á vettvang sem m.a. fara um svæðið með dróna.

Vegum í nágrenni vettvangsins hefur verið lokað og sjónarvottar segjast hafa séð reykjarsúlur stíga til himins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert