Flytja lögreglumenn til Västerås

Stór hluti lögregluliðsins í Västmanland hefur verið fluttur til Västerås.
Stór hluti lögregluliðsins í Västmanland hefur verið fluttur til Västerås. AFP

Stór hluti héraðsins Västmanland í Svíþjóð er án löggæslu í kjölfar skotárásar á heimili lögreglumanns í borginni Västerås í lok október. Allt tiltækt lögreglulið hefur nú verið flutt til borgarinnar til að tryggja ástandið þar. 

Lögreglustjórinn Robert Wallén segir í samtali við sænska sjónvarpið að vissulega hafi þetta  áhrif á löggæslu í héraðinu en rannsókn á tilræðinu í Västerås njóti forgangs. Lögreglumenn verði ekki að störfum um það allt eins og venja er en eftirlitsferðir verði þó farnar. Hann segir að mörgum lögreglumönnum hafi liðið illa í kjölfar árásarinnar og sumir hafi talað um að hætta í lögreglunni. Wallén tók þá ákvörðun að færa alla lögreglumennina á stöðina í Västerås. Það fyrirkomulag mun gilda næstu vikur. 

Aðfaranótt 28. október var yfir 20 skotum skotið á hús lögreglumanns í Hagaberg-hverfinu í Västerås. Lögreglumaðurinn var heima ásamt fjölskyldu sinni, m.a. tveimur börnum. Engan sakaði. Tvítugur maður var handtekinn í kjölfar árásarinnar, grunaður um morðtilraun. 

Þessa helgi voru fleiri árásir gerðar á lögreglumenn og lögreglustöðvar í landinu, m.a. í Dalbo og Kinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert