„Óásættanlegt“ að teikna typpi með herþotu

Flugmenn Bandaríkjahers við Boeing EA-18G Growler vél líkt og þá …
Flugmenn Bandaríkjahers við Boeing EA-18G Growler vél líkt og þá sem notuð var til að teikna typpið. AFP

Yfirmenn bandaríska sjóhersins hafa sagt það fullkomlega óásættanlegt að einn flugmanna hersins hafi notað flugslóðann til að teikna typpi á himininn.

Reðurtáknið birtist íbúum í Okanogan-sýslu á himni ofan nú í vikunni. BBC segir segir myndbirtinguna hafa vakið töluverða kátínu meðal íbúa, en að yfirmenn í herstöð sjóhersins í Whidbey hafi ekki séð fyndnu hliðina á málinu. Þess í stað hafi þeir fyrirskipað rannsókn á atvikinu.

Talsmaður herstöðvarinnar staðfesti að flugvélin sem notuð var til að teikna myndina hafi verið ein af Boeing EA-18G vélum hersins.

Vélin er svo nefndur Growler og er sérútbúin til rafeindahernaðar og getur náð nær tvöföldum hljóðhraða.

„Frá sjónarhóli hersins, þá gerum við strangar kröfur til flugmanna okkar og þetta er fullkomlega óásættanlegt,“ sagði Thomas Mills talsmaður herstöðvarinnar.



„Þetta hefur ekkert þjálfunargildi og flugáhöfnin mun þurfa að svara fyrir gjörðir sínar.“ 

Bandaríska loftferðareftirlitið segir flug vélarinnar ekki hafa falið í sér neina hættu og að þeirra sé ekki að vera með „siðferðiseftirlit“.

Fjöldi manns sem fylgdust með aðförunum á  jörðu niðri hafði gaman af. „Eftir að vélin gerði hringina tvo niðri þá vissi ég hvað þetta var og fór að hlæja,“ sagði Ramone Duran við Seattle Times.

Ekki var þó öllum skemmt og hafði KREM 2 sjónvarpsstöðin eftir einni konu að hún væri í uppnámi eftir að hafa þurft að útskýra fyrir börnum sínum hvaða mynd þetta væri.

Þetta er ekki fyrsta flugsveitin sem teiknar reðurtákn á himininn, en í ágúst á þessu ári teiknaði flugmaður hjá breska flughernum rúmlega 56 km stórt typpi á himininn yfir Lincolnshire á Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert