Komu upp um plastbarkamálið og var hótað uppsögn

Macchiarini með plastbarka. Þegar grunur vaknaði hjá læknunum fjórum sem …
Macchiarini með plastbarka. Þegar grunur vaknaði hjá læknunum fjórum sem höfðu unnið með Macchiarini að plastbarkaígræðslurnar hefðu ekki tekist jafn vel og gefið hafði verið í skyn, reyndi Macchiarini að koma með krók á móti bragði og kærði Grinnemo fyrir stuld á rannsóknum sínum.

Engin endir virðist vera á hneykslismálum í tengslum við plastbarkaígræðslur sem ítalski læknirinn Paolo Macciarini framkvæmdi m.a. á Karólinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.  Sænska dagblaðið Dagens Nyheter greindi nú í vikunni frá því að læknunum sem opinberuðu málið á sínum tíma hafi verið hótað uppsögnum eftir að þeir greindu frá grunsemdum sínum.

Blaðamaður Dagens Nyheter fundaði með læknunum fjórum sem vöktu athygli á málinu og sem greina nú í fyrsta skipti frá því hvernig líf þeirra breyttist á einni nóttu. „Þetta er búið að vera andleg rússíbanareið síðastliðinn fjögur ár. Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um það sem gerðist, en að tilkynna þetta ekki var enginn valkostur,” segir Karl-Henrik Grinnemo, einn læknanna.

Læknirinn Oscar Simonson tekur í sama streng.

Sýna hvernig fer fyrir uppljóstrurum

„Þetta var okkar ákvörðun. Þetta hefur tekið á, en við ætlum ekki að gefast upp. Eftir að við greindum frá þessu vorum við með kerfisbundnum hætti útskúfaðir frá styrkveitingum vegna rannsókna sem starfsfólk Karolinska Institutet stofnunarinnar á kost á. Það er eins og það hafi átt að sýna hvernig fer fyrir uppljóstrurum, “ segir Simonson.

Ljósmynd frá barkaígræðslu. Grunsemdir læknanna styrktust þegar fyrsti sjúklingurinn Erítreubúinn …
Ljósmynd frá barkaígræðslu. Grunsemdir læknanna styrktust þegar fyrsti sjúklingurinn Erítreubúinn And­emariam Tek­les­en­bet Beyene, sem kom frá Íslandi í aðgerðina, kom aftur á Karolinska sjúkrahúsið haustið 2013. Sagt hafði verið að hann væri á góðum batavegi, en hann reyndist hins vegar vera með samskonar vanda og greindist í dýratilrauninni. Karolinska Institut

Þeir Grinnemo og Simonson starfa báðir í dag á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum sem sérfræðingar í hálsskurðlækningum. En þangað fóru þeir eftir að mótlætið var orðið svo mikið að þeim fannst þeir ekki lengur geta starfað á Karolinska sjúkrahúsinu eða stofnunni.

Þegar læknarnir fjórir þeir Grinnemo, Simonson, Matthias Corbascio og Thomas Fux létu forsvarsmenn Karolinska Institutet vita af áhyggjum sínum af plastbarkamálinu mættu þeir ekki bara daufum eyrum, heldur litu stjórnendur vísvitandi undan. 

Segir Dagens Nyheter að stjórnendur Karolinska hafi ekki verið tilbúnir að horfa framhjá því að Macchiarini gæti aukið veg og virðingu Karolinska sjúkrahússins á alþjóðavettvangi. „Hver veit hvort heimsfrægð, stjörnustatus eða jafnvel Nóbelsverðlaun myndu fylgja í kjölfarið,” segir í fréttinni.

Má ekki blindast af persónutöfrunum

Stofnfrumurannsóknir voru árið 2011 ein af skærustu vonum læknavísindanna, og eru raunar enn. Það var í því andrúmslofti sem Macchiarini var ráðinn sem gestaprófessor til Karólínska Instituttet, jafnvel þó meðmæli hans væru nokkuð óljós.

„Hann kom frá Þýskalandi,”  rifjar  Grinnemo upp. En þar fannst honum sköpunargáfa sín ekki fá að njóta sín.  

„Það er ógnvekjandi þegar vísindamenn verða að hákörlum, eða öllu heldur þegar maður blindast af persónutöfrum einhvers. Maður verður að leggja mat á staðreyndir og gögn frekar en hvað einhver segir í tölvupósti,” segir Simonson.

Frá Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Læknarnir fjórir segja grunsemdum sínum …
Frá Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Læknarnir fjórir segja grunsemdum sínum ekki hafa verið vel tekið af neinum á Karolinska.

Grinnemo minnir á að enginn þeirra ellefu prófessora sem skrifuðu undir að þeir styddu ráðningu Macchiarinis hefur verið látinn svara fyrir sinn þátt.

Fyrstu niðurstöður dýrarannsóknanna kveiktu á viðvörunarbjöllum

Simonson rifjar upp fyrstu kynni sín af Macchiarini. „Ég hitti hann 2012 eftir barkaígræðslurnar þrjár sem hann gerði á Karolinska sjúkrahúsinu. Mitt framlag var að setja upp litla dýratilraun með Paolo. Hann sagði að það hefðu þegar verið gerðar rannsóknir á svínum, en síðar kom í ljós að það var ekki rétt. Fyrstu niðurstöður dýrarannsóknanna kveiktu á viðvörunarbjöllum.  Þar var m.a. hægt að sjá þrengsli í barka dýranna,”

Simonson segir þeim niðurstöðum ekki hafa verið vel tekið af neinum á Karolinska.  Engin hafi viljað hlusta á sig nema þeir Grinnemo, Corbascio og Fux.

Þessar grunsemdir styrktust þegar fyrsti sjúklingurinn Erítreubúinn And­emariam Tek­les­en­bet Beyene, sem kom frá Íslandi í aðgerðina, kom aftur á Karolinska sjúkrahúsið haustið 2013. Sagt hafði verið að hann væri á góðum batavegi, en hann reyndist hins vegar vera með samskonar vanda og greindist í dýratilrauninni. 

Það sama gilti um þriðja sjúklingin sem fór í aðgerðina á Karolinska. „Það var þá sem við fórum að fara í gegnum sjúkraskrárnar og fórum að kalla inn gögn úr berkjuspeglun,” segir Simonson.

Macchiarini kærði Grinnemo

Grinnemo tók þátt í tveimur af þremur plastbarkaígræðslum Macchiarinis. Þegar grunur vaknaði hjá læknunum fjórum sem höfðu unnið með Macchiarini að plastbarkaígræðslurnar hefðu ekki tekist jafn vel og gefið hafði verið í skyn, reyndi Macchiarini að koma með krók á móti bragði og kærði Grinnemo fyrir stuld á rannsóknum sínum.

Sænska siðanefndin Centrala etikprövningsnämnden (CEPN) sýknaði Grinnemo af ákærunum og taldi engan grundvöll fyrir ásökuninni. „Þegar við héldum áfram með grunsemdir okkar bendu þeir sjónum sínum að okkur öllum fjórum,” rifjar Simonson upp.

Sumarið 2014 afhentu þeir þáverandi forstjóra Karolinska Institutet, 500 blaðsíðna skýrslu sem geymdi m.a. sannanir um misferli á stofnunni.  Að ekki væri í lagi með plastbarkasjúklinga stjörnuskurðlæknisins Macchiarini eftir aðgerðina. Ekkert hefði heldur fundist sem benti til þess að aðgerðirnar hefðu hlotið samþykki siðferðisnefndar líkt og hann hélt fram. Þá hefðu heldur ekki verið gerðar tilraunir á dýrum áður en plastbarkarnir voru græddir í fólk. Loks hefði Macchiarini fegrað árangurinn og logið í vísindagreinum sem birtar höfðu verið um aðgerðirnar.

Utanaðkomandi sérfræðingur, Bengt Gerdin, var í kjölfarið fenginn til að rannsaka málið betur og rannsókn hans leiddi í ljós að blekkingum hafði verið beitt, en siðanefnd Karolinska hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að svo  hefði ekki verið.

„Það var  verulega áhugavert að sjá hvernig einn einstaklingur gat fengið tvær virtar stofnanir til að dansa eftir sínu lagi,” segir Grinnemo.

Samræður þögnuðu þegar þeir gengu inn

Macchiarini var rekinn frá Karolinska sjúkrahúsinu árið 2015, en fyrir læknana fjóra hafði uppljóstrunin í för með sér að starfsferli þeirra á Karolinska sjúkrahúsinu var lokið. Þeim var hótað uppsögn og þeir voru lækkaðir í tign og umsóknir þeirra um rannsóknarstyrki fengu ekki lengur afgreiðslu. Þeir fengu ekki lengur að taka þátt í aðgerðum og samræður þögnuðu þegar þeir gengu inn í herbergið.

„Við fjórir höfum verið hver öðrum stoð í þessu öllu. Við hittumst oft og spjöllum og svo eigum við fjölskyldur sem styðja við okkur,” segir Grinnemo. „En við fjórir höfum barist fyrir lífi okkar, líka sem læknar og fyrir því að lifa af.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert