Tugþúsundir mótmæla Mugabe

Mótmælendur veifa fánum og hrópa að forsetinn verði að segja …
Mótmælendur veifa fánum og hrópa að forsetinn verði að segja af sér. Tugþúsindir hafa safnast saman í Harare til að hvetja Mugabe til að segja af sér. AFP

Tugir þúsunda Zimbabwebúa hafa nú safnast saman í höfuðborg landsins Harare til að krefjast afsagnar Robert Mugabes, forseta landsins. Mugabe, sem er 93 og hefur farið með völd í landinu frá því að það fékk sjálfsstjórn frá Bretum árið 1980, var hnepptur í stofufangelsi í vikunni eftir að herinn tók yfir völd í landinu.

Mótmælafundurinn í dag nýtur stuðnings hersins og segir fréttaritari BBC í Zimbabwe að  mannfjöldinn fagni hermönnum á svæðinu.

Liðsmenn stjórnarflokksins Zanu-PF, sem og fyrrverandi hermenn, sem þar til í fyrra voru dyggir stuðningsmenn forsetans, segja nú að Mugabe eigi að segja af sér.

Mugabe hefur verið í stofufangelsi undanfarna daga, en kom fyrir almannasjónir á ný í gær í fyrsta skipti frá því að herinn tók yfir. Tók Mugabe þar þátt í útskriftarathöfn háskóla í Harare.

Herinn tók völdin í landinu í kjöl­far þess að Muga­be rak vara­for­set­ann Em­mer­son Mn­angagwa frá völd­um og gaf í skyn að eig­in­kona sín, Grace, væri bet­ur til þess fall­in að taka við af sér og leiða Zanu-flokk­inn. 

Hafa yfirmenn hersins sagst eiga í viðræðum við Mugabe og að þeir muni upplýsa almenning um niðurstöður þeirra viðræðna jafn fljótt og auðið er.

Stjórnarandstöðuflokkurinn ZDF sagði í yfirlýsingu á föstudag  að skipuleggjendur mótmælendanna hefðu sett  sig í sambandi við þá og um samstöðu göngu væri að ræða.

„ZDF tilkynnir því hér með að á meðan að gangan fer fram á friðsamlegan og skipulagðan hátt ... án hatursorðræðu eða þess að kvatt sé til ofbeldis, þá styður flokkurinn gönguna.“

Aðrir stjórnarandstöðuflokkar eru einnig sagðir hafa lýst yfir sínum stuðningi við gönguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert