Fjarlægja indíána úr orðabókinni

Orðið „indíáni“ hefur nú verið fjarlægt úr norsku orðabókinni þar …
Orðið „indíáni“ hefur nú verið fjarlægt úr norsku orðabókinni þar sem það þykir bera með sér neikvæðan undirtón kynþáttastefnu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ritstjórn Norsku alfræðiorðabókarinnar (n. Store norske leksikon) hefur ákveðið að fjarlægja orðið „indíáni“ úr verkinu þar sem það beri með sér neikvæðan undirtón kynþáttastefnu og sé ónákvæm lýsing á frumbyggjum Ameríku. Prófessor í málvísindum er ósammála og segir orðið hluta af norskum menningararfi og því að hafa alist upp við bókmenntir um indíána.

„Indíánar er algengt en misvísandi hugtak um frumbyggja Ameríku.“ stendur í orðabókinni eins og hún er nú en verkið er aðgengilegt öllum almenningi á lýðnetinu án endurgjalds.

Lars Kirkhusmo Pharo trúarbragðasagnfræðingur er einn af 600 fræðimönnum sem skrifa Norsku alfræðiorðabókina. Hann segir í viðtali við norska dagblaðið Dag og Tid að hugtakið indíáni beri með sér neikvæðan blæ kynþáttastefnu. Hann segir hvíta Evrópubúa hafa smíðað mörg hugtök yfir frumbyggja Ameríku gegnum aldirnar og nefnir meðal annars eitt sem Íslendingum er tamt.

„Norrænu landkönnuðirnir nefndu þá sem þeir hittu fyrir á Vínlandi skrælinga,“ segir Pharo en hugtakið skrælingjar kemur líklega fyrst fyrir í Íslendingabók Ara fróða þar sem hann fjallar um ferðir Eiríks rauða: „[...] af þvi má scilia at þar hafþi þess conar þióþ farit es Vinland hefir bygt oc Grœnlenndingar calla Scræliŋa.“ skrifar Ari (útgáfa Finns Jónssonar, AM 113 a fol.).

Eftir breytinguna verður hugtakið indíáni reyndar enn finnanlegt í vefútgáfu orðabókarinnar en þaðan mun verða framvísun til hugtaksins „frumbyggjar Ameríku“ (n. amerikansk urbefolkning).

Hluti af því að alast upp í Noregi

Erik Bolstad, ritstjóri Norsku alfræðiorðabókarinnar, vísar því á bug í viðtali í útvarpsþættinum Ytring hjá norska ríkisútvarpinu NRK í dag að orðið feli beinlínis í sér kynþáttamismunun en hins vegar sé það mjög ónákvæmt hugtak til að lýsa frumbyggjum Norður-Ameríku. „Orðabókin á að vera nákvæm og skiljanleg nútímafólki,“ sagði Bolstad í útvarpsþættinum. „Við höfum fellt út fjölda orða sem tvítugt fólk í dag skildi varla, svo sem frjósamur[/-söm] [n. fruktsommelig].“

Finn-Erik Vinje, prófessor emeritus í norskum málvísindum við Háskólann í Ósló, er ósammála ritstjórn orðabókarinnar og telur indíánahugtakið eiga fullan rétt á sér, það sé góð skilgreining á kynþættinum og vísi ekki að neinu leyti til kynþáttastefnu. „Mér finnst þetta sorglegt því [orðið] indíánar er hluti af norskri málhefð,“ sagði Vinje og klykkti út með þeim rökum að fyrir þá kynslóð Norðmanna sem ólst upp við að lesa dægurbókmenntir um indíána hafi hugtakið verið hluti af því að alast upp í Noregi. „Orðið er lifandi, það er í notkun og það á að haldast í málinu,“ sagði Vinje að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert