Mugabe rekinn sem formaður flokksins

Robert Mugabe, forseti Simbabve.
Robert Mugabe, forseti Simbabve. AFP

Stjórnarflokkur Simbabve, ZANU-PF, hefur steypt Robert Mugabe, forseta landsins, af stóli sem formanni flokksins. Í hans stað hefur varaforsetinn fyrrverandi, Emmerson Mnangagwa, verið valinn til að gegna embættinu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Mugabe hafði rekið Mnangagwa fyrir tveimur vikum og eftirlátið eiginkonu sinni varaforsetastólinn. Í kjölfarið fór af stað mjög hröð atburðarás í landinu og hafði herinn meðal annars afskipti af málunum. Síðan þá hefur fjöldi landsmanna krafist afsagnar Mugabes.

Að sögn talsmanns BBC brutust út mikil fagnaðarlæti á fundi flokksins þegar ákvörðunin var kynnt.

Mugabe á fund með formönnum hersins í dag, en ákvörðun ZANU-PF flokksins setur enn meiri pressu á forsetann að segja af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert