Hvatti lögreglu til að sýna miskunn

Páfi heilsar Franco Gabrielli, yfirmanni ítölsku lögreglunnar.
Páfi heilsar Franco Gabrielli, yfirmanni ítölsku lögreglunnar. AFP

Frans páfi hvatti í dag lögregluþjóna til að sýna miskunn þegar þeir stöðva ökumenn fyrir umferðarlagabrot. Einnig hvatti páfi lögregluþjóna til að vera ákveðnir gagnvart ökumönnum sem nota göturnar sem æfingabraut fyrir kappakstur.

Páfi hitti yfirmenn ítölsku umferðarlögreglunnar í dag og sagði að staðan á vegum úti væri oft og tíðum ótrúlega snúin.

„Við verðum að taka með í reikninginn að fjöldi ökumanna gætir ekki vel að sér. Þeir átta sig þá ekki á því hversu alvarlegar afleiðingar kæruleysi þeirra gæti haft,“ sagði páfi og átti þar til að mynda við ökumenn sem eru mikið í símanum við akstur.

Hann hvatti lögreglu til að sýna ákveðna miskunn og reyna að skilja ástæðu glæpsins. „Miskunn er ekki merki um veikleika,“ sagði páfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert