Tekur upp hanskann fyrir Spacey

Morrissey kom fram á tónleikum í Laugardalshöll árið 2006.
Morrissey kom fram á tónleikum í Laugardalshöll árið 2006. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breski rokkarinn Morrissey hefur enn á ný náð að vekja athygli fyrir ummæli sín en hann hefur tekið upp hanskann fyrir bandaríska leikarann Kevin Spacey sem sakaður hefur verið um kynferðislegt ofbeldi og misnotkun.

Morrissey segir í viðtali við Der Spiegel að árásir á Spacey séu óþarfar og fáránlegt sé að þurrka hann út úr væntanlegri kvikmynd.

Söngvarinn, sem áður var í hljómsveitinni Smiths, segir að skilgreiningar á áreitni og árásum séu túlkaðar allt of vítt. „Allir þeir sem hafa einhvern tíma sagt „mér líkar vel við þig“ við einhvern eiga allt í einu á hættu að vera kærðir fyrir kynferðislega áreitni,“ segir Morrissey.

Hann segir aftur á móti að nauðganir séu viðurstyggilegar og allar líkamsárásir andstyggilegar. Morrissey segir að ásakanir leikarans Anthony Rapp í garð Kevin Spacey séu ótrúverðugar en Rapp heldur því fram að Spacey hafi áreitt hann þegar hann var 14 ára.

Rapp sagði í viðtali við Buzzfeed að Spacey, sem þá var 26 ára gamall, hafi reynt að tæla hann í partíi í íbúð sinni árið 1986. Spacey hefur sagt að honum hafi brugðið mjög við að heyra ásakanir Rapp í hans garð og hann minnist þess ekki að hafa gerst sekur um að áreita Rapp.

„Ég veit ekki um ykkur en ég lenti aldrei í aðstæðum sem þessum á mínum yngri árum,“ segir Morrissey í viðtali við Der Spiegel. 

„Aldrei. Ég vissi alveg hvað gæti gerst því ef þú ert í svefnherbergi einhvers þá verður þú að gera þér grein fyrir hvað getur gerst.“

Hann telur líka að einhverjar þeirra kvenna sem hafa sakað Harvey Weinstein um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi séu að ýkja.

„Fólk veit nákvæmlega hvað er í gangi,“ segir hann þegar hann er spurður út í ásakanir á hendur Weinstein en framleiðandinn er sakaður um að hafa beitt leikkonur kynferðislegu ofbeldi og áreitt þær kynferðislega. Weinstein bauð leikkonunum upp í hótelherbergi sitt og þær tóku þátt í leiknum, segir Morrissey.

„Eftir á skömmuðust þær sín eða voru ósáttar og síðan snerist dæmið við og þær sögðu: Ég varð fyrir árás. Áreitnin kom mér í opna skjöldu,“ segir Morrissey.

Hann heldur áfram: „En allt fór þetta vel og ef þær hefðu fengið frábæran feril að launum þá hefðu þær ekki talað um þetta.“
Morrissey segist hata nauðganir en stundum vill svo vera að ásakanir séu ekki á rökum byggðar heldur sé um vonbrigði að ræða af hálfu fórnarlambsins. 

BBC fjallar um viðtalið Morrissey og hafði samband við söngvarann sem ætlar ekki að tjá sig frekar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert