Hvetja til mótmæla gegn Mugabe

Christopher Mutsvangwa, formaður sambands fyrrverandi hermanna, á blaðamannafundi.
Christopher Mutsvangwa, formaður sambands fyrrverandi hermanna, á blaðamannafundi. AFP

Fyrrverandi hermenn í Simbabve hvöttu í dag til mótmæla gegn forsetanum Robert Mugabe. Þing landsins hyggst kæra Mugabe og í kjölfarið stendur til að leggja fram tillögu um að honum verði vikið úr embætti.

Herinn hneppti Mugabe í stofufangelsi í síðustu viku. Hann ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi í fyrradag og var búist við því að hann myndi tilkynna afsögn sína. Það gerði hann ekki. 

„Allir verða að hætta því sem þeir eru að gera, koma til Harare... við viljum sjá Mugabe fara strax. Mótmælin verða að vera núna, við getum ekki þolað aðra klukkustund með Mugabe,“ sagði formaður sambands fyrrverandi hermanna í Simbabve, Christ Mutsvangwa.

Hópurinn hvatti íbúa landsins til að safnast saman við heimili forsetans sem kallast Blue Roof, og krefjast þess að hann segði af sér strax.

Flokkur Mugabes, ZANU-PF, gaf honum úrslitakosti sem hann hafði að engu. Þingmenn flokksins ætla nú að stíga fyrsta skrefið í þá átt að koma honum frá völdum.

Hershöfðingjarnir hafa hingað til verið helstu stuðningsmenn Mugabes en nú styðja þeir varaforsetann fyrrverandi, Emmerson Mnangagwa til valda. 

Mugabe rak varaforsetann á dögunum. Hann vill hað eiginkona sín, Grace Mugabe, taki við formennsku í ZANU-PF. 

Mugabe hefur setið á valdastóli frá því að Simbabve hlaut sjálfstæði árið 1980. Hann hafði hug á því að bjóða sig enn og aftur fram til forseta á næsta ári.

Varaforsetinn hvatti í dag Mugabe til að stíga til hliðar. Hann flúði land fyrir tveimur vikum þar sem hann óttaðist um líf sitt, að því er fram kemur í frétt BBC. Hann segist ekki ætla að snúa til heimalandsins fyrr en að ástandið þar verði tryggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert