Reynt að stöðva stjórnarkreppuna

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, vinnur að því hörðum höndum að reyna að binda enda á stjórnarkreppuna í landinu í kjölfar þess að upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Kristilegra demókrata, Frjálslyndra og Græningja slitnaði í gær.

Forsetinn fundaði með Angelu Merkel, leiðtoga Kristilegra demókrata, í gær og ætlar að funda með leiðtogum Frjálslyndra og Græningja í dag. Tilgangurinn með fundunum er að reyna að sannfæra þá um að taka upp viðræður á nýjan leik. 

Frétt mbl.is: Merkel líst illa á minnihlutastjórn

Valkostir Merkels eru ekki góðir. Annaðhvort að reyna að mynda stjórn með flokkum sem hafa efasemdir um samstarf við Kristilegra demókrata, mynda minnihlutastjórn sem óvíst er hvort nyti nauðsynlegs stuðnings eða boða til nýrra kosninga.

Haft er eftir hagfræðingnum Holger Schmieding að Þjóðverjar séu vægast sagt ekki miklir aðdáendur óstöðugleika, minnihlutastjórna eða endurtekinna þingkosninga. Vísar hann þar til pólitísks óstöðugleika í Þýskalandi á millistríðsárunum.

Ber að koma á stöðugri ríkisstjórn

Forseti þýska sambandsþingsins, Wolfgang Schäuble, hefur minnt stjórnmálaflokkana á að þeir beri ábyrgð gagnvart kjósendum á að koma á stöðugri ríkisstjórn en bætti því við að enginn yrði þó neyddur til þess að taka þátt í ríkisstjórn.

Schäuble lagði áherslu á að nágrannaríki Þýskalands í Evrópusambandinu þyrftu á því að halda að Þjóðverjar væru í aðstöðu til þess að láta til sín taka. Ráðamenn sambandsins hafa sagt að ekki sé hægt að setja allt á bið á vettvangi þess.

Frétt mbl.is: Verður kosið aftur í Þýskalandi?

Frjálslyndir slitu stjórnarmyndunarviðræðunum en fullyrt er í þýskum fjölmiðlum að ástæðan sé sú að þeir vilji að Merkel víki og verði ekki áfram kanslari. Merkel hefur hins vegar lýst því yfir að hún hafi engin áform um að segja skilið við stjórnmálin.

Fjöldi flokka er sögð ein skýringin á þeirri stöðu sem upp er komin en sex flokkar eiga fulltrúa á sambandsþinginu, ef Kristilegir demókratar og samstarfsflokkur þeirra CSU eru taldir saman, miðað við fjóra á síðasta kjörtímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert