Sakar Carter um nauðgun

Melissa Schuman.
Melissa Schuman. Ljósmynd/Facebook

Leik- og söngkonan Melissa Schuman hefur sakað Nick Carter um nauðgun fyrir 15 árum. Carter er einn liðsmanna strákabandsins Backstreet Boys.

Schuman greindi frá ásökunum í bloggfærslu fyrr í mánuðinum þar sem hún sagði frá atvikinu sem átti sér stað þegar hún var 18 ára og Carter 22 ára.

Schuman segir að hún og Carter hafi unnið saman við gerð sjónvarpsmyndar þegar hann bauð henni og annarri stelpu til að koma og slaka á í íbúð hans í Santa Monica.

Þar hafi Carter boðið henni inn á skrifstofu til að hlusta á tónlist sem hann var að vinna að. Þau byrjuðu að kyssast og hann leiddi hana inn á baðherbergi.

Schuman skrifaði að Carter hafi haft við hana munnmök, þrátt fyrir að hún hafi beðið hann að gera það ekki, og síðan hafi hann þvingað hana til að gera slíkt hið sama við hann.

Hún segist hafa verið hrædd og liðið eins og hún væri í sjálfheldu.

„Hann var miklu stærri og sterkari en ég og ég gat ekki opnað dyrnar til að fá einhvern mér til aðstoðar. Vinkona mín gat ekki hjálpað mér en ég vissi ekki einu sinni hvar hún var,“ skrifaði Schuman.

Carter fór með Schuman inn í svefnherbergi að því loknu, og þrátt fyrir að hafa sagt honum að hún væri hrein mey og væri að bíða með að stunda kynlíf þar til hún gengi í hjónaband, nauðgaði hann Schuman.

„Ég gæti orðið eiginmaður þinn,“ skrifaði Schuman að Carter hefði sagt til að tæla hana. Henni hafi liðið mjög illa eftir atvikið og vonað að þetta væri bara hræðileg martröð sem hún myndi vakna upp af.

Carter neitar ásökunum Schuman og kveðst vera miður sín. „Melissa sagði aldrei þegar við vorum saman eða síðar að við hefðum gert eitthvað sem hún var ekki samþykk. Við tókum upp lag saman og unnum saman. Ég studdi hana alltaf, bæði í vinnu og einkalífi,“ kom fram í yfirlýsingu Carter.

Frétt CNN.

Nick Carter, lengst til vinstri, ásamt félögum sínum úr Backstreeet …
Nick Carter, lengst til vinstri, ásamt félögum sínum úr Backstreeet Boys.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert