Frakkar handtaka rússneskan þingmann

Suleiman Kerimov er einn af ríkustu mönnum Rússlands. Hann er …
Suleiman Kerimov er einn af ríkustu mönnum Rússlands. Hann er sakaður um að hafa falið milljónir fyrir frönskum skattayfirvöldum á sama tíma og hann stæði í umfangsmiklum fasteignakaupum við frönsku Rivíeruna. AFP

Rússneskur milljarðamæringur og þingmaður sætir nú formlegri rannsókn í Frakklandi vegna gruns um skattaundanskot. BBC segir Suleiman Kerimov, sem er einn ríkasti maður Rússlands, hafa verið handtekinn í Nice seint á mánudagskvöld.

Rússnesk yfirvöld kölluðu í kjölfarið franska sendiherrann í Rússlandi á sinn fund og mótmæltu varðhaldinu. Kerimov var í kjölfarið látinn laus gegn ströngum skilmálum.

„Við munum beita öllum leiðum til að tryggja lagalega hagsmuni hans,“ hefur BBC eftir talsmanni rússneskra stjórnvalda.

Sagði hann Kerimov eiga að njóta friðhelgi diplómata, sem feli í sér að hann heyri ekki undir frönsk lög. „Þetta er sérstaklega mikilvægt í þessu tilfelli af því að Suleiman Kerimov er með diplómata vegabréf sem hann notaði við komuna til Frakklands,“ sagði hann.

Rússenska ríkissjónvarpsstöðin Rossiya 24 segir Kerimov hafa hafnað öllum ásökunum.

Ekki  hefur verið gefið upp hvers vegna hann var hnepptur í varðhald, en AFP-fréttastofan hefur eftir heimildamanni að Kerimov sé sakaður um að hafa falið milljónir fyrir skattayfirvöldum á sama tíma og hann stæði í umfangsmiklum fasteignakaupum við frönsku Rivíeruna.

Var Kerimov gert að greiða fimm milljón evra tryggingagjald fyrir að vera látinn laus.

Fjölskylda Kerimovs á stærsta gullfyrirtæki Rússlands Polyus og er Kerimov metinn á um 6,3 milljarða dollara. Hlutabréf í fjölskyldufyrirtækinu féllu í verði eftir að fréttir bárust af handtöku hans.

Kerimov er einnig þingmaður í öldungadeild rússneska þingsins og er þar annar tveggja fulltrúa Dagestan, sem er í norðurhluta Kákasusfjalla.

Þar til í fyrra var hann líka eigandi fótboltaliðsins Anzhi Makhachkala, sem vakti athygli fyrir kaup á dýrum stjörnum á borð við kamerúnska sóknarmanninn Samuel Eto'o.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert