Morðingi Bulgers aftur með barnaklám

Jon Venables myrti James Bulger árið 1993 og var í …
Jon Venables myrti James Bulger árið 1993 og var í fangelsi til ársins 2001. Þá fékk hann nýtt nafn.

Jon Venables, sem var tíu ára er hann myrti hinn tveggja ára gamla James Bulger árið 1993, hefur nú í tvígang orðið uppvís að því að vera með barnaklám í tölvu sinni. Denise Fergus, móðir Bulgers litla, segir að Venables sé ekki við bjargandi og að hann sé „andstyggilegur siðblindingi“. Hún segist hafa varað við því að hann myndi brjóta af sér að nýju.

Venables var dæmdur í fangelsi árið 2010 fyrir að hala niður og dreifa tugum klámmynda af börnum. Hann er því enn á skilorði en var hnepptur í varðhald í síðustu viku er hann varð uppvís að því að halda uppteknum hætti. 

Morðið á James Bulger vakti mikinn óhug í Bretlandi og …
Morðið á James Bulger vakti mikinn óhug í Bretlandi og víðar.

Denise Fergus segir í samtali við Sky-sjónvarpsstöðina að reynt hafi verið að láta málið fara hljótt. Það hafi sært sig. Hún segist í miklu uppnámi og reið vegna málsins. „Ég hafði varað við því að Venables myndi brjóta af sér að nýju ef ekki yrði fylgst mjög náið með honum og ég vona nú að einhver í ríkisstjórn Bretlands hlusti á mig.“

Venables er nú á fertugsaldri. Upp komst um myndirnar í tölvunni er skilorðsfulltrúar gerðu reglubundna leit á heimili hans.

Venables og bekkjarfélagi hans Robert Thomson voru tíu ára er þeir rændu, pyntuðu og drápu James Bulger í Bootle á Englandi árið 1993. Piltarnir lokkuðu litla drenginn út úr verslunarmiðstöð þar sem hann var staddur ásamt móður sinni. Lík hans fannst við lestarteina tveimur dögum eftir að hann hafði verið myrtur.

Þeir hlutu lífstíðarfangelsisdóm þrátt fyrir ungan aldur. Árið 2001 var þeim sleppt úr fangelsi og fengin ný nöfn og skilríki. Venables hóf fljótlega að brjóta af sér að nýju. Hann var m.a. handtekinn fyrir vörslu kókaíns árið 2008. Árið 2010 var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hala niður og dreifa barnaklámi.

Uppljóstrað var um hið nýja nafn hans í kjölfarið og var honum, að því er fréttamenn Sky komast næst, aftur gefið nýtt nafn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert