„Hugsanlega“ ekki nóg fyrir Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á Twitter í gærkvöldi að hann hefði hafnað viðtali við bandaríska tímaritið Time eftir að haft var samband og honum tjáð að mögulega yrði hann „maður ársins“, en það er nafnbót sem gefin er þeim sem hefur haft mest áhrif í heiminum það árið. Var Trump valinn „maður ársins“ af tímaritinu í fyrra.

Samkvæmt tísti Trumps í gær sagði hann að tímaritið hafi falast eftir viðtali og myndatöku vegna málsins. Hann hafi aftur á móti ekki verið nógu hress með að nafnbótin væri ekki örugg fyrir hann.

Time hefur svarað forsetanum og sagt að þeir upplýsi fólk ekki um valið fyrr en á útgáfudegi sem er 6. desember.

Sem fyrr segir var Trump valinn „maður ársins“ af tímaritinu, en yfirskrift þeirrar útgáfu var „Forseti sundraðra ríkja Ameríku.“ Trump virðist fylgjast náið með valinu ár hvert, en hann gagnrýndi á Twitter að hafa ekki orðið fyrir valinu árin 2012, 2014 og 2015. Þá var upplýst um það fyrr á þessu ári að á nokkrum golfvöllum í hans eigu væru uppi forsíðumyndir af Time þar sem hann sjálfur væri forsíðuefnið. Aftur á móti væri um falsaðar forsíður að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert