„Mér finnst þetta heimskulegt stríð“

Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

 Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, krafðist þess í dag að enn og aftur yrði reynt að binda enda á hið heimskulega stríð sem geisar í Jemen. Hann vonast til ríkisstjórn Donalds Trumps beiti Sádi-Araba þrýstingi til að lina þjáningar íbúa landsins.

„Mér finnst þetta heimskulegt stríð. Ég held að þetta stríð stríði gegn hagsmunum Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum og fólkinu í Jemen,“ sagði hann í viðtali við CNN. Voru orð hans óvenjulega hreinskilnisleg. „Það sem við þurfum er pólitísk lausn.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti kom mörgum á óvart á miðvikudag er hann bað bandamenn sína í Sádi-Arabíu opinberlega um að létta þegar í stað hafnbanni í Jemen svo  koma megi neyðarbirgðum til hins stríðshrjáða lands. Hungursneyð vofir yfir milljónum íbúa landsins. 

Trump fór hins vegar ekki fram á að loftárásum Sáda yrði hætt en Bandaríkin hafa átt aðild að umdeildu hernaðarbandalagi sem er þátttakandi í borgarastríðinu í Jemen. 

Guterres segir að á allra síðustu dögum hafi ástandið í Jemen þokast í rétta átt. Þannig hafi tekist að koma einhverri neyðaraðstoð til íbúanna. 

Um 9.000 hafa fallið í stríðinu á tveimur árum. Þá hafa um 2.000 látist úr kóleru og 8.000 til viðbótar úr öðrum sjúkdómum og sulti. „Það er öllum í hag að þessu stríði linni,“ sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert