Stærra en New York

AFP

Svæðið sem hefur eyðilagst í skógareldum í Kaliforníu er stærra en öll New York-borg. Ekkert lát virðist vera á eldunum sem loga í Ventura og Santa Barbara. Yfir 93 þúsund hektarar lands hafa orðið eldunum að bráð.

Frétt BBC

Mjög hvasst er á þessum slóðum og eru skógareldarnir þeir fimmtu stærstu sem hafa geisað í Kaliforníu frá upphafi. Íbúar við ströndina hafa verið beðnir að yfirgefa heimili sín en fleiri hundruð þúsund Kaliforníubúar hafa þurft að yfirgefa heimili sín frá því eldarnir brutust út 4. desember.

AFP

Um 1.000 slökkvistöðvar vítt og breitt í Kaliforníu vinna saman að því að ná tökum á eldunum. Um 4.400 manns berjast við stærsta eldinn af sex, en aðeins hefur tekist að ná tökum á um 15% af þeim eldi. Þó hefur aðeins betur gengið með hina fimm.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi vegna skógareldanna og heimilar með því aukið fjármagn frá alríkinu vegna ástandsins. Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, segir elda sem ógni lífi og eignum fólks nú einfaldlega hluta af lífi fólks á svæðinu. Brown segir Kaliforníubúa þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum sem komnar eru til vegna loftslagsbreytinga. Þykir það stinga í stúf við ummæli Bandaríkjaforseta en hann er efasemdamaður um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert