„Virðast hafa átt von á einhverju svona“

Tilræðismaðurinn Akayed Ullah. Hann slasaðist er frumstætt sprengjuvesti sem hann …
Tilræðismaðurinn Akayed Ullah. Hann slasaðist er frumstætt sprengjuvesti sem hann bar sprakk á neðanjarðarlestarstöðinni. AFP

Lífið í New York var fljótt að færast í hefðbundið horf aftur eftir að sprengja sprakk á neðanjarðarlestarstöð við Port Aut­ho­rity sam­göngumiðstöðina í ná­grenni Times Square í New York snemma í morg­un. Þetta segir Dagur Gunnarsson sem er í heimsókn í borginni.

Fjór­ir særðust í tilræðinu, m.a. maðurinn sem grunaður er um að hafa sprengt sprengjuna, 27 ára Bangladessbúi Akayed Ullah sem hefur verið búsettur í Bandaríkjunum frá 2011.

Tals­verð skelf­ing greip um sig fyrst eftir tilræðið og nokkrar rask­an­ir urðu á áætl­un­ar­ferðum.

„Mér sýnast annars allir vera bara slakir og rólegir,“ segir Dagur í samtali við mbl.is. „Ég hoppaði upp í leigubíl um tveimur tímum eftir að þetta gerðist og þá sagði bílstjórinn sagði að það væri kannski erfitt að vera á ferðinni í næsta nágrenni við árásarstaðinn, en að annars væri allt eins og venjulega.“

Lögregla handtók tilræðismanninn á vettvangi en Ullah, sem var íklæddur frumstæðu sprengjuvesti, slasaðist í tilræðinu og var fluttur á Bellevue sjúkrahúsið til aðhlynningar.  

Dagur Gunnarsson segir mikla lögregluviðverðu í New York, en svo …
Dagur Gunnarsson segir mikla lögregluviðverðu í New York, en svo hafi líka verið fyrir tilræðið. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Þungvopnaðir lögreglumenn með riffla

Dagur segir mikla lögregluviðveru í borginni, en að þannig hafi það einnig verið dagana á undan. „Ég er að koma hingað í fyrsta skipti, en mér fannst mikil lögregluviðvera almennt áður en þetta gerðist og stemningin er einhvern veginn þannig. Fyrir utan fjöldann af lögreglubílum og lögreglumönnum þá eru þungvopnaðir lögreglumenn með riffla, hríðskotabyssur og hjálma líka áberandi á helstu stöðum, þannig að þeir virðast hafa átt von á einhverju svona.“

Ullah var með dvalarleyfi í Bandaríkjunum, en hann kom til landsins með foreldrum sínum. Hann var með leyfi til leigubílaksturs að sögn fréttastofu CNN, en ók hvorki einum af gulu leigubílunum né fyrir Uber.

AP-fréttastofan hefur eftir lögreglumönnum að Ullah hafi verið undir áhrifum af Ríki íslams, en að hann hafi ekki haft nein bein tengsl við vígasamtökin.

Hann var ekki á sakaskrá í Bangladess, en heimsótti landið síðast í september á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert