Lögregla deili upplýsingum í auknum mæli

Lögreglan að störfum hjá jólamarkaðinum í Potsdam, skammt frá Berlín. …
Lögreglan að störfum hjá jólamarkaðinum í Potsdam, skammt frá Berlín. Ár er nú frá því að Anis Amri myrt 12 manns með því að aka flutningabíl á fólk á markaðinum. AFP

Evrópusambandið kynnti í dag áætlun um að ríki sambandsins deili með sér upplýsingum í auknum mæli í því skyni að reyna að draga úr líkum á að hryðjuverkamenn sem gangi undir fleiri en einu nafni nái að forðast eftirlit, líkt og gerst hefur í nokkrum þeirra tilræða sem framin hafa verið í álfunni undanfarin misseri.

AFP segir ESB hafa lagt til að tekið verði upp kerfi sem taki við af núverandi upplýsingakerfum sem lögreglumenn, landamæraverðir og aðrir geyma í tölvum sínum.

„Hryðjuverkamenn og hættulegir glæpamenn ættu ekki að geta sloppið í gegnum netið,“ sagði Julian King sem fer með öryggismál hjá Evrópusambandinu. Megintilgangurinn með kerfinu sé að útiloka svonefnda blinda bletti sem hryðjuverkamenn nýti sér.

„Þetta metnaðarfulla nýja viðhorf snýr að því að hafa stjórn á og nýta þær upplýsingar sem eru til; bæta við upplýsingagjöf og gera hana hnitmiðaðri. Koma böndum á mismunandi nafnaskráningar og auka lögreglueftirlit.

Með breytingunum muni landamæraverðir og lögregla geta leitað samstundis í fjölda gagnagrunna innan ESB til að sannreyna uppruna skilríkja, frekar en að þurfa að ákveða í hvaða grunni eigi að leita.

Fingrafaraskráning og andlitsgreining byggð á líftækniupplýsingum verða einnig í grunninum, sem og nöfn og aðrar æviupplýsingar einstaklinga utan ESB.

Þá mun breytingin gera lögreglu og landamæravörðum kleift að flagga einstaklinga t.d. ef fleiri en eitt nafn kemur upp með sömu fingraförunum.

Hátt settur embættismaður hjá framkvæmdastjórn ESB sagði við AFP að nýja kerfið yrði engin töfralausn. Það gæti vissulega dregið úr hryðjuverkaógninni en ekki komið í veg fyrir hana. 

Ár er nú frá því að Anis Amri, hælisleitandi frá Túnis, ók flutningabíl á jólamarkað í Berlín með þeim afleiðingum að 12 manns létust. Yfirvöld viðurkenndu síðar að gallar í öryggiseftirliti hefðu gert Amri kleift að vera skráður undir fjölda nafna og þannig komast hjá eftirliti yfirvalda á sama tíma og hann var í samskiptum við vígasamtökin Ríki íslams. Tveir þeirra sem komu að hryðjuverkaárásunum í París og Marseille í Frakklandi voru einnig skráðir undir fleiru en einu nafni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert