Sakfelldur fyrir nauðgun og morð

AFP

Dómstóll á Indlandi sakfelldi í dag karlmann fyrir að hafa nauðgað og myrt laganema í hnífaárás í bænum Perumbavoor í lok apríl 2016. Blóðugt lík fórnarlambsins fannst á heimili þess og voru tæplega 30 stungusár á því. Var líkið mjög illa farið.

Maðurinn, Muhammed Ameerul Islam, var sakfelldur fyrir morð, nauðgun og húsbrot. Dómur verður kveðinn upp yfir honum á morgun en saksóknarar hafa farið fram á dauðarefsingu. Konan sem var myrt tilheyrði lægstu stétt Indlands og bjó ein með móður sinni sem var ekki heima þegar árásin átti sér stað. Var hún í laganámi sem fyrr segir.

Það tók lögregluna tæplega tvo mánuði að hafa uppi á Islam. Saksóknarar segja að árásin hafi verið að tilefnislausu en fjölmiðlar hafa fullyrt að um einhvers konar hefnd hafi verið að ræða vegna ágreinings. Málið leiddi til mikilla mótmæla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert