Ullah ákærður fyrir hryðjuverk

Lögreglumaður stendur vörð við Port Authority neðanjarðarlestarstöðina. Búið er að …
Lögreglumaður stendur vörð við Port Authority neðanjarðarlestarstöðina. Búið er að ákæra Akayed Ullah sem stóð fyrir sprengjutilræði þar í gærmorgun. AFP

Akayed Ullah sem grunaður er um hryðjuverkatilræði á Port Authority samgöngumiðstöðinni í Manhattan gærmorgun hefur nú verið ákærður fyrir hryðjuverk.

Ullah, sem er 27 ára Bangladessbúi sem búið hefur í Bandaríkjunum frá 2011, er alvarlega slasaður eftir tilræðið og dvelur nú á Bellevue sjúkrahúsinu vegna alvarlega brunasára sem hann fékk er heimatilbúið sprengjubelti hans sprakk að því er BBC greinir frá.

Þrír til viðbótar slösuðust í tilræðinu sem átti sér stað á háannatíma.

Lögreglan í New York greindi frá því á Twitter í dag að Ullah hefði verið ákærður fyrir vopnaeign, fyrir stuðning við hryðjuverkasamtöku og fyrir hryðjuverkaógn.

Sagði Ullah lögreglu við yfirheyrslur að hann hefði fengið hugmyndina frá hryðjuverkaárásum í Evrópu um jólaleytið og að hann hefði valið Port Authority vegna fjölda hátíðarplakata á veggjum neðanjarðarlestarstöðvarinnar, að því er bandarískir fjölmiðlar greina frá.

Tilræðismaðurinn Akayed Ullah. Hann slasaðist er frumstætt sprengjuvesti sem hann …
Tilræðismaðurinn Akayed Ullah. Hann slasaðist er frumstætt sprengjuvesti sem hann bar sprakk á neðanjarðarlestarstöðinni. AFP

Loftárásir Bandaríkjahers á vígasamtök Ríkis íslams í Sýrlandi og annars staðar hefðu þó verið helsta kveikjan á tilræðinu, að því er New York Times greinir frá.

Lögregla hefur nú gert húsleit á heimili Ullah í Brooklyn, en lögregla telur hann ekki hafa átt sér neina samstarfsmenn.

CBS sjónvarpsstöðin hefur eftir John Miller hjá hryðjuverkadeild New York lögreglunnar að Ullah hafi hvorki átt í sérstökum fjárhagsörðugleikum, né heldur hafi hann vakið athygli lögreglu eða bandarísku alríkislögreglunnar FBI fyrir tilræðið.

„Þetta er nokkuð dæmigert fyrir það sem við erum að sjá víða um heim, þ.e. einhver sem birtist óvænt einn daginn eins og þruma úr heiðskýru lofti,“ sagði Miller.

Yfirvöld í Bangladess segja Ullah ekki hafa verið á sakaskrá þar í landi, en hann dvaldi síðast í landinu í september á þessu ári.  Þar á hann eiginkonu, sem ekki flutti með honum til Bandaríkjanna. Hún og aðrir ættingjar hans sæta nú yfirheyrslum í tengslum við rannsóknina.

Bangladess er ekki í hópi þeirra ríkja sem ferðabann Donald Trump Bandaríkjaforseta á að ná til. Forsetinn sagði þó á mánudag að árásin „beindi athyglinni að þeirri miklu þörf ... að koma á lagabótum til að verja bandarísku þjóðina“.

„Bandaríkin verða að laga slakt innflytjendakerfi sitt sem gerir allt of mörgum hættulegum einstaklingum sem hafa sætt ónógri rannsókn kleift að koma til landsins,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert