Ullah sendi Trump viðvörun á Facebook

Tilræðismaðurinn Akayed Ullah. Hann slasaðist er frumstætt sprengjuvesti sem hann …
Tilræðismaðurinn Akayed Ullah. Hann slasaðist er frumstætt sprengjuvesti sem hann bar sprakk á neðanjarðarlestarstöðinni. AFP

Akayed Ullah, maðurinn sem stóð fyrir sprengjutilræði við Port Authority samgöngumiðstöðinni í New York í gærmorgun, sendi Donald Trump Bandaríkjaforseta viðvörun á Facebook skömmu áður en hann réðist til atlögu að sögn BBC.

„Trump þér mistókst að vernda þjóð þína,“ stóð í færslunni sem alríkissaksóknari greindi frá í dag.

Ullah, sem er 27 ára innflytjandi frá Bangladess og hefur búið í Bandaríkjunum frá 2011, er sagður hafa ætlað tilræðið sem stuðningsaðgerð við vígasamtökin Ríki íslams.

Ullah er alvarlega slasaður eftir tilræðið, en hann var með heimatilbúið sprengjuvesti vafið um sig. Þrír aðrir særðust i tilræðinu sem átti sér stað á háannatíma.

Lög­regl­an í New York greindi frá því á Twitter í dag að Ullah hefði verið ákærður fyr­ir vopna­eign, fyr­ir stuðning við hryðju­verka­sam­tök og fyr­ir hryðju­verka­ógn.

Ákærurnar voru birtar síðar í dag en þar er Ullah ákærður fyrir að veita erlendum hryðjuverkasamtökum stuðning, fyrir að nota gjöreyðingarvopn og sprengju á almannafæri.

Ullah sagði lögreglumönnum að hann hefði búið til sprengjuna heima hjá sér og m.a. notað vír úr jólaljósaseríu til verksins. Sprengjuna festi hann svo við sig með frönskum rennilás. Kvaðst hann vera að gera „þetta fyrir Ríki íslams“ og að loftárásir Bandaríkjahers á Ríki íslams hafi verið kveikjan að tilræðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert