Vildi hefna fyrir loftárásir

Akayed Ullah, 27 ára gamall innflytjandi frá Bangladess, segir að hann hafi viljað hefna fyrir loftárásir Bandaríkjahers á liðsmenn vígasamtakanna Ríki íslams og eins hafi hann viljað tengja árásina öðrum hryðjuverkum í Evrópu tengdum jólunum.

Ullah ætlaði að fremja sjálfsvígsárás með heimatilbúinni sprengju í New York í gær. Ýmislegt fór úrskeiðis hjá Ullah og er hann sá eini sem særðist alvarlega í tilræðinu sem hann framdi í neðanjarðarlestargöngum á háannatíma í gær. 

Hann sagði við lögreglu að hann hafi virkjað sprengjuna á þessum stað vegna auglýsingaskilta tengdum jólunum. Með því væri hann að vísa til hryðjuverkaárása í Evrópu í kringum jólin. 

En sprengjan var ekki jafn kröftug og hann vildi og því lítill skaði skeður annar en að hann sjálfur er með talsverða áverka.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, nýtti tækifærið til þess að segja að það yrði að herða innflytjendareglur frekar og núgildandi reglur gefi alltof mörgum hættulegum einstaklingum kost á að komast inn í landið.

Í yfirlýsingu Trump segir hann að tilraun til fjöldamorðs í New York nú, sem er önnur hryðjuverkaárásin í borginni á tveimur mánuðum, sýni og sanni nauðsyn þess að þingið samþykki lög til varnar bandarísku þjóðinni. 

Sprengjan sprakk á neðanjarðarlestarstöðinni á Port Authority umferðarmiðstöðinni, ekki langt frá Times Square, og myndaðist mikil skelfing meðal fólks sem var í nágrenninu.

Að sögn lögreglu virðist sem galli í útbúnaði sprengjunnar hafi valdið því að skaðinn var ekki meira en Ullah var með sprengjuna festa við brjóstkassann. Hann er með alvarleg brunasár, bæði á búk og höndum og er ástand hans alvarlegt. Þrír kenndu sér meins en það var suð fyrir eyrum og höfuðverkur í kjölfar hávaðans frá sprengjunni. 

Að sögn borgarstjórans í New York er Ullah ekki liðsmaður vígasamtaka en hann virðist vera undir áhrifum frá Ríki íslams og öðrum vígasamtökum. Fjölskylda hans hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist harmi lostin vegna árásarinnar. 

Fjölskyldan gagnrýnir framgang lögreglunnar harðlega og segir að lögreglan hafi ruðst inn í kennslustofu frænda Ullah í menntaskóla og yfirheyrt hann án lögfræðings.

Jólin nálgast og virðist sem Ullah hafi farið eftir tilmælum vígasamtaka eins og Ríki íslams og Al-Qaeda um að ráðast til atlögu þar sem fjöldi fólks er í tengslum við jólin. Í Berlín í fyrra framdi flóttamaður frá Túnis árás með því að keyra inn í hóp fólks á jólamarkaði en 12 létust í tilræðinu. 

Lögreglan í Bangless segir að Ullah sé ekki á sakaskrá þar í landi og virðist ekki tengjast vígasamtökum þar í landi. Hann er heldur ekki á lista yfir þá sem grunaðir eru um tengsl við hryðjuverkasamtök hvorki í Bangladess eða annarsstaðar. „Við erum að reyna að safna saman frekari upplýsingum,“ segir Sanwar Hossain, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar í Bangladess.

Ullah kom til Bandaríkjanna fyrir sjö árum en fjölskylda hans er meira og minna öll í Bandaríkjunum. Faðir hans flutti til höfuðborgar Bangladess, Dhaka, fyrir 30 árum en hann er frá eyju skammt fyrir utan hafnarborgina Chittagong. Fátt annað er vitað um Ullah í Bangladess að sögn lögreglu þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert