25 fíkniefnaverksmiðjur eyðilagðar í Afganistan

Afganskir valmúabændur safna ópíumsafa úr valmúaplöntum á akri sínum í …
Afganskir valmúabændur safna ópíumsafa úr valmúaplöntum á akri sínum í Nangarhar héraðinu. Talið er að talibanar hagnist um 200 milljónir dollara á ári með skattlagningu á valmbúabændur og smyglara. AFP

Flugher Bandaríkjanna hefur eyðilagt 25 fíkniefnaverksmiðjur í Afganistan frá því í lok nóvember á þessu ári. Þetta hefur AFP-fréttastofan eftir Lance Bunch, fylkisforingja í flughernum, sem segir aðgerðirnar áhrif á fjárstreymi til uppreisnarsveita talibana í landinu.

Bandaríkjaher beinir nú aðgerðum sínum í landinu gegn fíkniefnaverksmiðjunum sem þar starfa. „Þetta jafngildir 80 milljónum dollara í eiturlyfjafé sem er tekið frá forsprökkunum og kemur í veg fyrir að rúmlega 16 milljónir dollara í sölutekjur lendi hjá samstarfsfélögum þeirra talibönum,“ sagði Bunch á fundi með fréttamönnum.

John Nicholson, yfirhershöfðingi sem leiðir starf hersveita Bandaríkjanna og NATO í Afganistan tilkynnti nýlega að tekin yrði upp nýja stefna og sjónum beint að tekjum talibana af fíkniefnafé, en talið er að á milli 400-500 fíkniefnaverksmiðjur séu starfræktar víðsvegar um landið.

Sagði Bunch að flugvélar af gerðinni F-22 Raptor hefðu einkum verið notaðar til að gera árásir á verksmiðjur til sveita.

Talið er að talibanar hagnist árlega um 200 milljónir dollar með skattlagningu á fíkniefnaframleiðslu valmúabænda og fíkniefnasmyglara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert