Ákærð fyrir að brenna fjölskyldu inni

Lögreglan hafði ítrekað verið í samskiptum við fjölskylduna vegna ógnana …
Lögreglan hafði ítrekað verið í samskiptum við fjölskylduna vegna ógnana sem hún hafði orðið fyrir. Wikipedia

Karl og kona hafa verið ákærð fyrir morð eftir að þrjú börn brunnu inni í húsi í Salford í nágrenni Manchester. Karlmaðurinn er 23 ára og konan tvítug. Þau hafa bæði verið ákærð fyrir þrjú morð, fjórar morðtiltraunir og lífshættulega íkveikju.

Parið er í gæsluvarðhaldi og mun mæta fyrir dómara í dag, að því er fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið. 

Eldur kviknaði í húsi í Salford 11. desember. Sjö úr sömu fjölskyldu voru inni í húsinu er eldurinn kviknaði. Þrjú börn, 14, átta og sjö ára, létust. Móðir þeirra liggur alvarlega slösuð á sjúkrahúsi og fjórða systkinið, sem er þriggja ára stúlka, er enn í lífshættu.

Í frétt Sky segir að móðirin sé enn á svo miklum verkjalyfjum að hún viti ekki að þrjú barna hennar eru látin.

Tveimur sextán ára drengjum tókst að komast lífs af úr eldsvoðanum. Annar þeirra er bróðir barnanna sem létust. Hann er sagður hafa reynt að brjóta sér aftur leið inn í eldhafið til að reyna að bjarga systkinum sínum. 

Í frétt Sky segir að fjölskyldan hafi búið við ógn og til dæmis hafi verið búnaður á bréfalúgu hússins til að gera viðvart ef eitthvað væri sett þar inn. Lögreglan í Manchester staðfestir að „uppákomur“ hafi verið við húsið og lögreglan hafi verið í samskiptum við fjölskylduna innan við sólarhring áður en eldurinn kviknaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert